Bónus, fyrirtæki ársins á Suðurlandi
Bónus var í dag valið fyrirtæki ársins 2011 á Suðurlandi af félagsmönnum Verslunarmannafélags Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags. Niðurstaðan var kynnt í nýrri verslun fyrirtækisins við Larsenstræti á Selfossi. Þór Hreinsson skrifstofustjóri Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi afhenti verslunarstjóra fyrirtækisins viðurkenningarskjal og einnig fengu starfsmenn Bónus blómakörfu við það tækifæri. Fram kom í máli hans að mannauður er dýrmætasti hluti hvers fyrirtækis og að Bónus væri vel að verðlaununum komið. Markmið könnunarinnar er að gefa starfsmönnum tækifæri að koma skoðunum sínum á framfæri og skapa þannig grundvöll til að ræða vinnuaðstæður og kjör.
Sendur var spurningalisti til allra félagsmanna Verslunarmannafélags Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags. Þátttakendur voru beðnir að leggja mat á lykilþætti í sínu starfsumhverfi. Könnuninni er meðal annars ætlað að mæla hversu vel svarendum líður í vinnunni, stjórnun, starfsanda og vinnuaðstöðu. Fyrirhugað er að gera þessa könnun árlega framvegis. Alls svöruðu starfsmenn 33 fyrirtækja á félagssvæði félaganna könnuninni. Eftirtalin fyrirtæki skoruðu hæst hjá starfsfólkinu:
1. Bónus, Selfossi
2. Olís, Selfossi
3. Tölvu- og rafeindaþjónusta Suðurlands
4. N1, Suðurlandi
5. Hótel Selfoss
6. Pylsuvagninn Selfossi
7. Jötunn vélar
8. Dvalar- og hjúkrunarheimiliðKumbaravogur
9. Heilbrigðisstofnun Suðurlands
10. Húsasmiðjan