Bónus lægst
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamat í sjö matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri sl. þriðjudag. Kannað var verð á 98 algengum matvörum sem eru í boði fyrir jólahátíðina. Bónus var með lægsta verðið í 36 tilvikum af 98 og Iceland í 29. Hagkaup var með hæsta verðið í 41 tilvikum af 98 og Nettó í 22 tilvikum. Nóatún bætist nú í hóp þeirra verslanna sem neita að taka þátt í verðkönnun ASÍ, Víðir og Kostur Dalvegi, eru hinar.
Flestar vörurnar sem skoðaðar voru að þessu sinni voru fáanlegar í verslunum Hagkaupa eða í 94 tilvikum af 98, Fjarðarkaup áttu til 88 af 98 og Krónan 85. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Úrvali Akureyri eða aðeins 57 og Bónus og Iceland áttu aðeins til 64. Verðmerkingum var ábótavant hjá Nettó Mjódd en í 14 tilvikum vantaði verðmiða.
Mestur verðmunur í könnuninni reyndist á fersku rósakáli sem var dýrast á 498 kr./kg. hjá Nettó en ódýrast á 258 kr./kg. hjá Bónus, verðmunurinn er 240 kr. eða 93%. Mikill verðmunur var einnig á Þykkvabæjar skyndikartöflum 2*500 gr. sem voru dýrastar á 559 kr./st. hjá Hagkaupum en ódýrust á 447 kr./st. hjá Bónus, verðmunurinn er 112 kr. eða 25%.
Minnstur verðmunur í könnuninni reyndist vera á SS Birkireyktu hangilæri frá SS með beini, sem var dýrast á 2.399 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrast á 2.299 kr./kg. hjá Krónunni sem er 4% verðmunur. Aðeins meiri verðmunur var á 600 gr. konfektkassa frá Lindu, sem var dýrastur á 1.599 kr. hjá Nettó en ódýrastur á 1.439 kr. hjá Iceland sem er 11% verðmunur.
Sjá nánari upplýsingar í töflu í frétt á heimasíðu ASÍ.
Verslanirnar Nóatún, Kostur Dalvegi og Víðir vilja ekki upplýsa um verð
Kannað var verð á 98 matvörum s.s. kjötvörum, mjólkurvörum, kökum, konfekti, drykkjarvörum, grænmeti og ávöxtum. Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru sem það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar. Neytendur ættu því að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Akureyri, Krónunni Höfða, Nettó Mjódd, Iceland Granda, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Akureyri og Hagkaupum Skeifunni. Verslanirnar Nóatún, Kostur Dalvegi og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Tekið af heimasíðu ASÍ