Bónus oftast með lægsta verðið
Bónus Korputorgi var oftast með lægsta verðið eða í 44 tilvikum af 90 og þar á eftir kom Víðir Skeifunni með lægsta verðið í 14 tilvikum. Iceland Engihjalla var oftast með hæsta verðið eða í 40 tilvikum og Hagkaup Skeifunni þar á eftir með hæsta verð í 13 tilvikum.
Flestar vörutegundir sem verðlagseftirlit ASÍ skoðaði í könnun sinni í matvöruverslunum þann 5. september sl. fengust í Bónus Korputorgi eða 86 af 90 og í Fjarðarkaupum átti 85 vörutegundir af 90. Fæstar vörur í könnuninni fengust í Costco eða 24 af 90.
Mikill verðmunur á dömubindum
Mestur verðmunurinn í könnuninni var á ódýrasta stykkjaverði af dömubindum, normal 3ja dropa með vængjum. Þau voru ódýrust í Bónus Korputorgi á 11 kr. stykkið en dýrust á 36 kr. stykkið í Kjörbúðinni-Samkaup í Bolungarvík og í Iceland Engihjalla, sem er 25 kr. verðmunur eða 227%. Einnig var mikill verðmunur á Finish powerball uppþvottavélatöflum. Ódýrasta stykkjaverðið var 12 kr. í Costco en það var hæst 29 kr. í Fjarðarkaupum, verðmunurinn 17 kr. eða 142%.
Mikill verðmunur var einnig á ódýrasta kílóverði á hveiti í könnuninni eða 147%. Lægsta var verðið 75 kr. í Bónus en hæst var kílóverðið á hveiti 195 kr. í Víði sem er 116 kr. verðmunur. Einnig var mikill munur á kílóverði af rauðum eplum sem var lægst 170 kr. hjá Krónunni en dýrast 375 kr. í Costco sem er 205 kr. verðmunurmunur eða 121%.
Sjá verðsamanburð á öllum vörum
Hér er einfalt að bera saman verð milli verslananna í könnuninni
Framkvæmdin
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum þann 5. september 2017; Bónus Korputorgi, Krónunni Höfða, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni-Samkaup Bolungarvík, Hagkaupum Skeifunni, Víði Skeifunni og Iceland Engihjalla.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. Sjá frétt á heimasíðu ASÍ.