Við vinnum fyrir þig

Translate to

Bónus oftast með lægsta verðið

Verslunin Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið mánudaginn 30. september. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10/11 Laugavegi eða í meira en helmingi tilvika. Verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru var frá 25% upp í 75% en í þriðjungi tilvika var meira en 75% verðmunur. Mestur var hann hins vegar 187%. Í 10% tilvika var vara óverðmerkt hjá Samkaupum-Strax á Seyðisfirði. 
 
Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 119 af 127, Nóatún í Grafarholti átti til 118 og Krónan Akranesi og Hagkaup Seltjarnarnesi áttu 116 vörur. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Strax eða 81 af 127, 10/11 átti til 87 og Kjarval Hellu átti 89 vörur.
 
Mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti
Af þeim 127 matvörum sem skoðaðar voru, var munur á hæsta og lægsta verði sjaldnast undir 25% og í þriðjungi tilvika var hann yfir 75% verðmunur. Minnstur verðmunur var á Goða kindakæfu, sem var ódýrust á 1.693 kr./kg. hjá Krónunni en dýrust á 1.840 kr./kg. hjá Nettó,  Samkaupum-Úrvali og Kaskó, verðmunurinn var 147 kr. eða 9%. Mestur verðmunur í könnuninni var ávaxtaperu, sem var dýrust á 799 kr. hjá 10/11 en ódýrust á 278 kr. hjá Iceland sem gerir 521 kr. verðmun eða 187%. Oftast var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði ávöxtum og grænmeti.  
 
Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má nefna að mikill verðmunur var á 300 gr. smjörva sem var ódýrastur á 286 kr. hjá Bónus en dýrastur á 439 kr. hjá 10/11 sem er 53% verðmunur. Annað dæmi um mikinn verðmun má nefna Ritz kex 200 gr. sem var ódýrast á 177 kr. hjá Bónus en dýrast á 329 kr. hjá 10/11 sem er 152 kr. verðmunur eða 86%. Pepsi max 2 l. var ódýrast á 209 kr. hjá Bónus en dýrast á 459 kr. hjá 10/11 verðmunurinn 250 kr. eða 120%. Kakóið Swiss Miss m/sykurpúðum 737 gr. var ódýrast á 699 kr./kg. hjá Iceland en dýrast á 927 kr. hjá Samkaupum-Strax, verðmunurinn er 33%.  
 
Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ.  
 
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
 
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Borgarnesi, Krónunni Akranesi, Nettó Selfossi, Iceland Engihjalla, Nóatúni Grafarholti, Hagkaupum Seltjarnarnesi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Víði Hringbraut, Samkaupum-Úrvali Ísafirði, Samkaupum-Strax Seyðisfirði, Kaskó Húsavík, Kjarval Hellu og 10/11 Laugavegi.
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ