Við vinnum fyrir þig

Translate to

Breytingar á aðalfundi Bárunnar

Aðalfundur Bárunnar var haldinn í gærkvöldi, 18.maí.

Starf félagsins að miklu leiti snúist um vinnu vegna kjarasamninga og aðstoð við félagsmenn eins og gefur að skilja en einnig hefur mikil vinna verið lögð í vinnustaðaskírteiniseftirlit enda hefur það sýnt sig að með því eftirliti næst oft til félagsmanna sem alla jafna hafa ekki burði eða möguleika til að fylgjast með og sækja réttindi sín. Formaður félagsins, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir er í samninganefnd Starfsgreinasambandsins, auk þess að gegna fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Fulltrúar félagsins hafa líka verið duglegir að leggja sitt af mörkum í starfi hreyfingarinnar með þáttöku á fundum og í nefndum.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa þá var fjallað um breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs og reglugerð vinnudeilusjóðs.

Í sjúkrasjóð er það helst að skilgreining á hugtakinu „heilsuefling“ er víkkuð og ákveðið að styðjast við lista Ólympíusambands Íslands yfir samþykktar íþróttagreinar innan þess. Þetta gerið það meðal annars að verkum að frá 1.júní verður hægt að sækja um úr sjúkrasjóði vegna æfingagjalda og ársgjalda í íþróttagreinar sem eru á áðurnefndum lista. Listann má sjá hér

Heildastyrkur félagsmanns miðað við full réttindi er hækkaður úr kr.60.000 í kr.70.000 á ári. Nýr styrkur kemur einnig inn en það er styrkur vegna krabbameinsskoðunnar í ristli og blöðruhálskirtli að hámarki kr.10.000.

Einnig hefur tannlæknastyrkur verið hækkaður úr kr.4000 í kr.7000.

Reglugerð vinnudeilusjóðs var breytt til að geta tekist á við þær kjaradeilur sem nú eru en eins og kunnugt er þá hefur ekki þurft að leita í þann sjóð í tæp þrjátíu ár og kominn tími til að færa til betra horfs. Meðal annars má nefna að fyrstu 4 dagar verkfalls eru nú launalausir í stað 7 daga áður, tekið var út ákvæði að einungis fullgildir félagar eigi rétt til greiðslu og félagsmenn sem lenda í launamissi vegna verkfalls eða vinnustöðvunar og starfa tímabundið á öðru félagssvæði en Bárunnar munu hér eftir eiga rétt á greiðslum.

Ýmislegt fleira var tekið til umræðu svo sem staðan í kjaramálum. Hörð afstaða kom fram hjá fundarmönnum að hvergi yrði hvikað frá þeim kröfum sem fram hafa komið af hálfu Starfsgreinasambandsins um lágmarkslaun og lítil hrifning var af fréttum um tilboð Samtaka atvinnulífsins um breytingar á vinnutíma gegn hækkun dagvinnukaups.

Rætt var um verkföll og verkfallaðgerðir og sáu fundarmenn ástæðu til að þakka sérstaklega þeim starfsmönnum og félagsmönnum sem lagt hafa hönd á plóginn, bæði við undirbúning atkvæðagreiðslu um aðgerðir og einnig við mjög virka verkfallsvörslu en fram koma að félagið hélt úti aðgerðum víðs vegar um félagssvæðið sem er nokkuð víðfemt.

Í yfirferð endurskoðanda kom fram að félagið er vel rekið með góða afkomu sem félagsmenn njóta strax, meðal annars í hækkun á og nýjum styrkjum sjúkrasjóðs.

Kosið var um varaformann, þrjá stjórnarmenn og þrjá varamenn auk þess sem kosið var í ráð og nefndir. Ekki kom mótframboð við lista upstillinganefndar og var hann því sjálfkjörin og verða engar breytingar frá síðasta aðalfundi.

Á fundinum kom fram töluverður áhugi á að kanna möguleika á sameiningu stéttarfélaga á almenna markaðnum á Suðurlandi með það að markmiði að á svæðinu starfaði öflugt stéttarfélag í öllum greinum.

Að lokum má geta að tveir nýir starfsmenn Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna sem Báran er aðili að voru kynntir og síðast en ekki síst var Þórunni Þórhallsdóttur, sem staðið hefur vaktina á skrifstofu félagsins óslitið frá upphafi, þökkuð vel unnin störf. Stóðu fundarmenn upp og klöppuðu Þórunni lof í lófa.

Góður andi var yfir fundinum og greinilegt að félagsmenn Bárunnar eru tilbúnir í slaginn