Við vinnum fyrir þig

Translate to

Drífa Snædal ávarpaði þing ETUC

Drífa Snædal, forseti ASÍ, ávarpaði í dag þing ETUC (Evrópusamband verkalýðsfélaga) sem haldið er í Lissabon í Portúgal. Hún gerði endurreisnina eftir Covid faraldurinn að umtalsefni í ræðu sinni eins og sjá má hér fyrir neðan. Önnur umræðuefni á þinginu hafa snúist um lágmarkslaun í Evrópu, stöðu verkalýðshreyfingarinnar í álfunni og fækkun þeirra sem taka laun samkvæmt kjarasamningum.

Ávarp Drífu Snædal á þingi ETUC:

Kæru félagar

Síðustu ár hafa einkennst af lágum vöxtum í sögulegu samhengi en einnig af sívaxandi ójöfnuði sem hefur leitt til enn frekari samþjöppunar auðs. Kapítalistarnir eru því með vasa fulla af peningum og í stöðugri leit að nýjum tækifærum til að ávaxta fé sitt. Og hvert skyldu peningaöflin leita núna?  Í innviði hvers lands, verðmætin sem eru í eigu launafólks og almennings. Nú er ekki eingöngu eftirsóknarvert að fjárfesta í vegum og fasteignum, heldur  einnig í þeim félagslegu innviðum sem halda samfélögum okkar saman: Í sjúkrahúsum, orkufyrirtækjum, félagslegu húsnæði, öldrunarþjónustu, umönnun, o.s.frv. Fjárfestar leita sífellt nýrra leiða til að draga sér fé úr sameiginlegum sjóðum okkar. Hagnaðurinn verður til á bökum launafólks sem fær minna greitt fyrir vinnu sína og verri starfsaðstæður, á kostnað þeirra sem þurfa þjónustuna og þvert á hagsmuni opinberra sjóða. Við höfnum þessari þróun og hyggjumst áfram berjast gegn henni. 

Kapítalistar hafa alltaf notfært sér kreppur og það er núna, þegar við nálgumst vonandi upphafið á enda kórónuveirukreppunnar, sem ákvarðanir eru teknar um hvernig við ætlum að greiða fyrir kreppuna. Krafan um niðurskurð ómar nú á ný en við skulum hafa eitt á hreinu: blóðugur niðurskurður er aldrei efnahagsleg nauðsyn, hann er alltaf pólitísk ákvörðun sem til lengdar er gríðarlega skaðlegur fyrir bæði efnahaginn og samfélagið.

Þar á launafólk bandamenn á ólíklegustu stöðum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti skýrslu í síðustu viku þar sem sjóðurinn varar við miklum niðurskurði, ríki þurfi ekki að keppast við að greiða niður skuldir sem fyrst. Sama tón má heyra hjá OECD og öðrum alþjóðastofnunum. Það versta sem við getum gert núna er að veikja félagslegu kerfin okkar eða draga úr möguleikum ríkja á að styrkja félagsleg kerfi sín. Við drógum þennan lærdóm af kreppunni fyrir 10 árum síðan en það þarf enginn að efast um það að fjármálaöflin eru sterk og alltaf nærri. Stöndum saman og tryggjum afkomu allra, það er ekki bæði gott og rétt heldur einnig best fyrir hagkerfið. Bestu lausnirnar sem gripið var til í heimsfaraldrinum komu frá verkalýðshreyfingunni og sneru að því að tryggja afkomu fólks gegnum erfiða tíma. Þetta hefur haldið hagkerfum okkar gangandi. Við verðum að hafa þolinmæði til að vaxa út úr kreppunni því aðrir valkostir geta verið mjög skaðlegir fyrir launafólk í Evrópu og víðar. 

Við styðjum að fullu baráttu ETUC gegn niðurskurðarstefnu og fyrir aukinni fjárfestingu í félagslegum innviðum. Þannig byggjum við betri framtíð fyrir launafólk.