Drífa Snædal forseti ASÍ var gestur á félagsfundi Bárunnar stéttarfélags.
Foseti ASÍ Drífa Snædal kom og fundaði með félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags.
Drífa fór yfir áherslur hreyfingarinnar í hinum ýmsu málum, atvinnumál, lífeyrismál, húsnæðismál, stöðu kjarasamninga og jafnréttismál. Drífa fór yfir samkomulag sem ríkið gerði við undirritun lífskjarasamningssins sl. vor. Eitt af meginmarkmiðum kjarasamningsins er að stuðla að vaxtalækkun og hafa þau markmið gengið eftir. Samningsaðilar eru að vinna að tillögum um þær skattkerfisbreytingar sem fram koma í lífskjarasamningum og er sú vinna á seinni stigum.
Drífa fór yfir nýútkomna skýrslu um kjarasamningsbrot á vinnumarkaði og hvað staðan væri bagaleg í þeim efnum. Fram kom hjá forseta að vinnustaðaeftirlit stéttarfélaganna hefur stóraukist á síðustu árum og er eitt öflugasta verkfæri til þess að takast á við brotastarfsemi á vinnumarkaði en betur má ef duga skal.
Drífa hefur verið í forsetastól ASÍ í að verða ár og fór yfir áherslur í starfi og þann árangur sem náðst hefur. Drífa var full að eldmóði og viðraði ýmsar nýjar og skemmtilegar hugmyndir um áherslur verkalýðshreyfingarinnar til framtíðar. Góður rómur var gerður að heimsókn Drífu og fram kom hjá félagsmönnum mikil ánægja með hana sem málsvara stærstu launþegasamtaka á Íslandi, ASÍ.