Eftirlitið á fulla ferð.
Nú, þegar halla fer að hausti og starfsfólk týnist til baka úr sumarfríum tekur alvara lífsins við að nýju og starfsemi skrifstofu stéttarfélaganna kemst á fullt skrið að nýju.
Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum vegna nýrra kjarasamninga en ekki verður annað séð en flestir atvinnurekendur hafi brugðist rétt við breytingum. Þó eru örfá mál í gangi þar sem tekist er á um nokkur atriði, sérstaklega hvað varðar sumarstarfsmenn. Í því tilefni er rétt að árétta að þessi samningur nær til allra þeirra sem vinna eftir samningum félagsins, líka hlutavinnufólks og sumarstarfsmanna.
Vinnustaðaskírteiniseftirlit ASÍ er komið á fullt en samkvæmt lögum frá Alþingi frá árinu 2010 ber atvinnurekanda að sjá til þess að hver starfsmaður beri, eða hafi tiltækt, vinnustaðaskírteini . Tilgangur laganna er að fylgjast með því að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi og að lög, reglur og kjarasamningar séu virt. Stéttarfélögin leggja sérstaka áherslu á eftirlit með kjarasamningshluta laganna. Eftirlitsfulltrúar okkar hafa verið á ferðinni undanfarið víða og kannað stöðuna. Áhersla hefur verið lögð á ferðaþjónustuna og er það að gefnu tilefni. Víða er pottur brotinn, ekki síst hvað varða útlendingana og unga fólkið okkar. Nokkur mál hafa komið til kasta stéttarfélaganna eftir þessar eftirlitsferðir fyrir utna þau mál sem berast eftir öðrum leiðum. Reynslan sýnir okkur að þetta eftirlit hefur áhrif, ekki bara til að fylgjast með og kanna grun um kjarasamningsbrot, heldur ekki síður til að gefa atvinnurekendum og félagsmönnum tækifæri til að fá svör við spurningum sem kannski hafa vaknað en fólk ekki alltaf vitað hvert það hefur átt að snúa sér.
Einnig hefur verið farið í eftirlit með starfsfólki eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra tail að fylgjast með að farið sé eftir skattalögum en að sjálfsögðu helst það í hendur að ef kjaramálum starfsfólks er ábótavant þýðir það gjarnan um leið að skatturinn er snuðaður um sitt og gjarnan er sitthvað fleira í ólagi um leið. Það er Ríkisskattstjóri ókátur með og gefur lítinn afslátt á þeim lögum og reglum sem gilda um þau atriði.
Langoftast eru móttökurnar góðar á vinnustöðum og flestir viljugir til að lagfæra það sem þarf en stundum þarf þó að fara í hart. Án þess að hafa tekið það sérstaklega saman má trúlega telja í milljónum fjárhæðirnar sem innheimtar eru á hverju ári vegna brota á kjarasamningum. Okkur hjá stéttarfélögunum þykir ástandið heldur fara versnandi hvað þessi brot varðar og má velta fyrir sér afhverju svo er. Ljóst má þó vera að vöxtur ferðaþjónustunar er við það eða kominn fram yfir getu eftirlitsaðila til að fylgjast með sem skyldi og virðast sumir tilbúnir til að nýta sér það.
Þetta eftirlit mun halda áfram og vonandi tekst að efla það með tímanum.