Einbeittur brotavilji?
Umræður um launamál hafa verið fyrirferðamiklar á síðustu dögum. Mikið hefur borið á kjarasamningsbrotum og hvernig réttindi fólks eru fótum troðin. Undirrituð vill fagna þeirri umræðu sem farin er af stað í fjölmiðlum og ekki síst þeirri vakningu að standa vörð um kaup, kjör og lágmarkskjarasamninga. Opinber rökstudd umræða er til þess fallin að fleiri þora að koma fram og vilja skoða sína stöðu og fá leiðréttingu sinna kjara. Hér á eftir koma nokkur dæmi úr fjölmiðlum síðustu daga þar sem lítilsvirðing ákveðinna fyrirtækja gagnvart starfsmönnum þeirra er algjör;
„Það sem er sárast við þetta er ekki upphæðin sem þau missa á tímann heldur það sem er verið að kenna börnunum okkar, er þau stíga sín fyrstu skref út á atvinnumarkaðinn, að þetta sé í lagi að svíkja samninga. Þá spyr maður sig hverskonar skilaboð er verið að gefa þeim,“ (mbl.is 14.08 2014).
„Ég fékk uppsagnarbréf í fyrsta skipti á ævinni fyrir að leita réttar míns. Ég hafði bara fengið hrós fyrir mína frammistöðu og fannst gaman að vinna þarna, þannig að mér fannst þetta frekar skítleg framkoma,“ (mbl.is 14.08 2014)
„Það þorði enginn að koma með mér, því allir voru hræddir um að verða reknir,“ (mbl.is 02.08 2014).
Þessi dæmi eru allt of algeng og virðast vera nokkuð viðloðandi á íslenskum vinnumarkaði því miður. Stéttarfélögin fá mikið af málum á sitt borð og hafa verið ötul að leggja fólki lið í þeim efnum. Félagsmenn hafa því miður oftar en ekki samband fyrr en ráðingarsambandi er lokið vegna vissrar hræðslu við uppsögn. Miðað við umræðu síðustu daga er það vel skiljanlegt. Sum fyrirtæki virðast ekki vilja gera hlutina samkvæmt leikreglum á vinnumarkaði heldur kjósa þann kost að segja starfsfólki upp ef það leitar réttar síns. Þetta er engum til fyrirmyndar og við verðum að sporna við þessari þróun. Hvernig komumst við fyrir svona vinnubrögð.
Hvað skal gera í þessari stöðu.
- Í fyrsta lagi er það skýlaus krafa að farið sé eftir kjarasamningum.
- Skriflegur ráðningarsamningur skal gerður eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að starf hefst. (ef starfsmaður er ekki viss um að allt sé í lagi hafa þá samband við trúnaðarmann á vinnustaðum og/eða stéttarfélagið). Þegar um ágreining er að ræða tekur ráðningarsamningurinn af allann vafa.
- Kjósa trúnaðarmann á vinnustaðinn ef vinna fleiri en 5 starfsmenn. Lykill að góðu samstarfi milli starfsmanna, atvinnurekanda og stéttarfélags er góður og virkur trúnaðarmaður.
- Fá upplýsingar hjá stéttarfélaginu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.
Það er reynsla okkar hjá stéttarfélögunum að oft er þetta skortur á upplýsingum hægt er að leiðrétta hlutina strax áður en einhver missskilningur fer í gang. Góð samvinna milli atvinnurekenda og stéttarfélagann er oft lykilatriði í að koma hlutunum í gott lag eins og dæmin sanna.
Félögin á Suðurlandi fóru í ákveðna samvinnu við garðyrkjubændur vegna þráláts orðróms um að ekki væri farið eftir kjarasamningum. Félagið hafi undir höndum launaseðil félagsmanns sem fól í sér 5 kjarasamningsbrot. Félagið boðaði fulltrúa félags garðykjubænda á fund og bauð upp á ákveðna samvinnu við að kom hlutunum í lag. Skemmst er frá því að segja að viðbrögð fulltrúa félags garðyrkubænda Bjarna Jónssonar framkvæmdastjóri og Sveins Sælands formanns félags garðyrkjubænda voru alveg til fyrirmyndar. Boðað var til fundar á Flúðum þar sem stéttarfélögin og garðyrkjubændur mættu og fóru yfir málin. Full sátt varð um koma hlutunum í lag og hefur samvinnan verið mjög góð milli aðila.
Mikið hefur verið hringt til stéttarfélaganna bæði atvinnurekendur og starfsmenn fyrirtækjanna síðan þessi umræða fór af stað í fjölmiðlum. Í flestum tilfellum erum við í góðu samstarfi við atvinnurekendur og erum ávallt fús til þess að aðstoða og veita upplýsingar eins og þurfa þykir. Að gefnu tilefni vil ég segja við félagsmenn stéttarfélaganna, ef þú ert í einhverjum vafa um þitt ráðningarsamband og ráðningarkjör þín leitaði þá til þíns félags strax.
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.