Ekkert um okkur án okkar
Þing ASÍ var sett í morgun. Hér má finna ávarp varaformanns ASÍ-Ung.
Þingfulltrúar og aðrir góðir gestir
Ég heiti Ástþór Jón Ragnheiðarson. Ég starfa sem þjálfari og er varaformaður ASÍ-UNG.
ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem sjá til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins.
Síðastliðið starfsár hefur verið ákaflega viðburðarríkt hjá ASÍ-UNG. Við höfum staðið fyrir hinum ýmsu viðburðum sem miða að ungu, vinnandi fólki. “Ertu með vinnuna í vasanum” – pallborðsumræður og fundur um skilin milli vinnu og einkalífs var haldinn í stúdentakjallaranum. Tekið var þátt í “ungir leiðtogar” námskeiðinu. CPow sem er heimsátak alþjóðaverkalýðshreyfingarinnar ITCU gegn hamfarahlýnun, en þar er af nógu að taka.
Þá hefur ASÍ-UNG einnig átt fulltrúa í hinum ýmsu nefndum innan verkalýðshreyfingarinnar. Ástþór Jón var settur fulltrúi ASÍ í ETUC-youth committe, sem er nefnd innan evrópsku verkalýðshreyfingarinnar og hefur hann verið okkar málsvari þar, og sótti meðal annars ráðstefnu í Portúgal í lok janúar.
Innan ASÍ eigum við svo fulltrúa í öllum fastanefndum og einnig situr formaður fundi miðstjórnar ASÍ.
Ég get sagt, full sjálfstrausts, að ASÍ-UNG hefur haft í nógu að snúast og svo sannarlega gætt hagsmuna ungmenna innan verkalýðshreyfingarinnar. Fyrstur manna skal ég viðurkenna að við hefðum getað verið sýnilegri, en það veltur líka á því hve sýnileg heildarstamtökin leyfa okkur að vera. Hve mikil raunveruleg áhrif við fáum að hafa.
Það er nefninlega þannig, að til þess að ASÍ-UNG geti haft áhrif á hagsmunamál ungs fólks, þurfa heildarsamtökin að gera okkur kleift að hafa þau áhrif.
Nú liggur fyrir frumvarp um breytingu á fæðingarorlofslögum. ASÍ hefur komið að vinnu við þetta frumvarp og styður það, en það gerir ASÍ-UNG ekki. Það vill nefninlega svo til að þó svo að við eigum að sjá til þess að málefni ungs fólks séu ávallt á dagskrá, fáum við ekki alltaf að taka þátt í þeim málum, sem er ákaflega slæmt, sérstaklega þegar um er að ræða málefni af þessari stærðargráðu.
Ég held að ekki sé hægt að finna grímulausara dæmi um skort á samstafi og samráði heldur en akkurat í þessari vinnu. Málefni sem varðar ungt fólk, fyrir ungt fólk, en án aðkomu ungs fólks.
Í grunninn hljóðar þetta frumvarp þannig að:
– fæðingarorlof lengist upp í 12 mánuði
– orlofinu er jafnskipt milli foreldra eða 6 mánuðir á hvort
– tökutími styttist úr 24 mánuðum niður í 18
Fljótt á litið er þetta flott, þarna er verið að auka jafnrétti kynjanna með jafnri skiptingu. En þegar betur er að gáð þá koma ýmsir vankantar í ljós. Jafnrétti er nefninlega mikilvægt, en velferð barnsins á ávalt að vera í forgrunni.
Þannig er mál með vexti að þetta er frumvarp sem hentar hálauna og forréttindafólki vel.
Velferð barns, jafnréttissjónarmið og þar eftir götum, eru ekki höfð í fyrirrúmi, þrátt fyrir tilraunir til þess að láta okkur halda það, staðreyndirnar eru einfaldlega:
– Tökutími fer úr 24 mánuðum niður í 18.
– Börn einstæðra mæðra fá styttra orlof, ekki er gert ráð fyrir að þær fái 12 mánaða orlof, heldur mesta lagi 7.
– Þetta hentar vel tekjumiklu fólki, sem þolir skerta innkomu í nokkurn tíma, þar sem fyrir eru góðir sjóðir.
Þetta er akkurat ekkert annað en sparnaðaraðgerð, færri koma til með að fullnýta rétt sinn. Einstæðar mæður fá minna og feður munu taka minna orlof, því miður blasir það við. Síðan er þessi orðræða um skiptingu orlofs fáránleg. Þetta á að vera jafnt? Faðirinnn á jafn mikinn rétt á orlofi og þar eftir götum? Sá eini sem á rétt á orlofinu er barnið, hvort sem það sé tekið jafnt eða meirihluta með öðru foreldri.
Það að ASÍ taki þátt í aðgerðum sem hentar forréttinda og háluna fólki vel, í nafni jafnréttis og á kostnað þeirra sem minna meiga sín, er með öllu óásættanlegt. Við eigum að vera málsvari jaðarsettra hópa, en ekki forréttindahópa.
Í fjölmiðlum er því gjarnan haldið fram að verkalýðshreyfingin sé ósamstíga og ósammála, að við göngum ekki í takt og séum klofin. En það er líka akkurat það sem gerist, þegar ekki er unnið saman, eins og í þessu máli hér. Til þess að koma fram sem sterk, sameinuð heild, þá verðum við að vinna saman og eiga samtalið, til þess erum við hér, málsvarar ungs fólks.
En við skulum ekki dvelja í fortíðinni. Það er okkur unga fólkinu eðlislægt að horfa fram á veginn. Horfumst í augu við það sem hefur farið á mis, lærum af mistökum okkar og setjum okkur það markmið að gera betur í framtíðinni, með þátttöku allra. Aðeins þannig myndast sterk og sameinuð heild sem gætir hagsmuna vinnandi fólks.