Við vinnum fyrir þig

Translate to

Er vinnuveitandi þinn rétti aðilinn til að passa upp á réttindi þín?

Kæri launþegi. Já, ég er að skrifa til þín sem þiggur laun frá öðrum en sjálfum þér.

Hvað fyndist þér um það ef atvinnurekandinn þinn gerði kröfu um að þú kysir ákveðinn stjórnmálaflokk? Eða gerði það að kröfu að þú framvísaðir ákveðnu flokksskírteini þegar þú sæktir um vinnu hjá honum? Styddir ákveðið íþróttafélag eða verslaðir bara í ákveðinni verslun? Hann léti jafnvel í það skína að það gæti komið sér illa fyrir þig að samþykkja ekki þessar kröfur. Myndir þú sætta þig við það?

Tæplega, enda vandséð að sú staða gæti komið upp í dag. Það er löngu liðin tíð, ekki satt? Fæst viljum við láta ráðskast með okkur á þennan hátt. Við viljum hafa frelsi til að taka þessar ákvarðanir sjálf á okkar eigin forsendum. Það er hinn eðlilegi gangur í lýðræðissamfélagi.

En hvað ef atvinnurekandi þinn vill ráða því í hvaða stéttarfélag þú greiðir? Er það í lagi? Hvað finnst þér um það?

Skoðum það aðeins.

Nokkuð hefur borið á því meðal fyrirtækja á félagssvæðum félaganna að ýmist er hótað eða reynt að flytja starfsmenn yfir í stéttafélög sem ekki hafa samningsumboð á svæðinu. Slíkt kemur í flestum tilvikum upp í kjölfar afskipta stéttarfélaganna af kjaramálum starfsmanna. Tilgangurinn er aðeins einn; að losna við afskipti viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélög hafa þær lögboðnu skyldur að gæta að og fylgja því eftir að kjarasamningar séu virtir. Það er hinsvegar afstaða sumra atvinnurekenda að með afskiptum sínum séu stéttarfélögin að hafa afskipti af rekstri fyrirtækjanna. Það eru í það minnsta rökin sem við starfsmenn stéttarfélaganna að fáum að heyra. Að telja samningsbrot eðlilegan þátt í rekstri fyrirtækis hlýtur að teljast einkennileg afstaða.

Bara svo því sé haldið til haga; atvinnurekanda er það óheimilt að taka svona ákvörðun fyrir hönd starfsmanna sinna. Við getum gengið svo langt að segja að það sé ekki mál atvinnurekandans hverjum launþeginn treystir best til að gæta hagsmuna sinna. Og líka þetta:  Ekki er heimilt að greiða til stéttarfélags sem ekki hefur samningsumboð á viðkomandi svæði. Svo einfalt er það. Það má til dæmis nefna að VR hefur ekki samningsumboð á félagssvæði Verslunarmannafélags Suðurlands frekar en Verslunarmannafélag Suðurlands geti gert samninga fyrir hönd félagsmanna VR. Efling, stéttarfélag hefur ekki samningsrétt á félagssvæði Bárunnar og svo framvegis.

Í lögum félaganna er skýrt kveðið á um hvað telst félagssvæði stéttarfélags og hvaða skyldur og réttindi fylgja í þeim efnum. Atvinnurekendur eru ekki undanþegnir því að hlýta lögum, frekar en aðrir. Við hvetjum atvinnurekendur og launþega sem eru að velta þessum málum fyrir sér að kynna sér  lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og að kynna sér í framhaldinu hvaða stéttarfélög hafa samningsumboð á svæðinu. Það er yfirleitt fyrsta greinin í félagslögunum.

Þetta getur valdið launþeganum töluverðum skaða. Launþegi sem fluttur er milli félaga getur tapað áunnum réttindum úr sjóðum félaganna og getur einnig lent í því að það er enginn sem hefur heimild til að vinna fyrir hann eða reka mál fyrir hans hönd ef upp kemur ágreiningur um laun eða kjör. Launþeginn situr uppi með tapið ef á honum er brotið en launagreiðandinn kemst upp með að brjóta á viðkomandi. Og fleirum í sömu stöðu. Taktu afstöðu félagi og láttu ekki snuða þig um það sem þú hefur rétt til.