Ertu búin(n) að fá vinnu í sumar?
Nú er ráðningum í sumarstörf að ljúka. Unga fólkið streymir út á vinnumarkaðinn til að vinna sér inn aur og létta, tímabundið, álaginu á veski foreldra og ættingja.
Reynslan sýnir okkur að unga fólkið veltir því sjaldan fyrir sér hvort verið sé að greiða eftir kjarasamningum. Ánægjan yfir því að fá vinnu er flestu öðru. Einnig skortir oftast þekkingu á þeim réttindum og skyldum sem fylgja vinnunni. Af því tilefni viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
Það er ein meginregla í gangi samkvæmt lögum og kjarasamningum:
Ekki má greiða laun eða bjóða upp á kjör sem eru undir gildandi kjarasamning hverju sinni.
Gæta skal að því að kaup og kjör standist kjarasamning að lágmarki. Annað er lögbrot. Það er líka óleyfilegt að semja sig niður fyrir samninginn, þrátt fyrir að báðir aðilar séu sáttir. Þetta er mjög mikilvægt.
Það er ekkert í kjarasamningum sem heitir jafnaðarkaup.
Það er góð regla að þegar boðið er upp á eina krónutölu fyrir unna klukkustund þá liggi það fyrir hvað er lagt til grundvallar þegar þessi tala er fundin út. Hvað er innifalið í þessari tölu? Hver er vinnutíminn, í hverju felst vinnan? Algengt er, að þegar fólk sættir sig við jafnaðarkaup þá er það um leið að taka á sig launalækkun.
Það er kallað að vinna svart þegar laun eru þegin án þess að þeim fylgi launaseðill og greitt sé til samfélagsins það sem lög segja til um.
Ef launþegi samþykkir, eða fer fram á að vinna svart þá er hann ekki bara að brjóta lög heldur er hann um leið að afsala sér mikilvægum réttindum. Hann á ekki veikindarétt, hefur ekki uppsagnarfrest, er ekki slysatryggður, á engan rétt til orlofs og ávinnur sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Rísi ágreiningur við vinnuveitanda er hann alltaf í lakari stöðu en atvinnurekandinn. Vinnuveitandinn getur leyst ágreininginn á þann einfalda hátt að reka þann sem er óánægður og sá óánægði hefur enga leið til að leita réttar síns.
Það er óheimilt að láta fólk vinna launalaust á svokölluðum reynslutíma.
Vinna getur aldrei verið launalaus, jafnvel þó fólk sé tekið inn til reynslu. Mörg dæmi eru um að fólk hafi skilað upp í viku vinnu án þess að fá laun.
Ef þú ert í einhverjum vafa um kaup eða kjör hafðu þá samband við stéttarfélagið þitt og fáðu úr því skorið hvort rétt er staðið að málum.