Fáheyrður atburður í versluninni Kosti
Eigandi Kosts, Jón Gerald Sullenberger, reyndi að meina starfsfólki verðlagseftirlits ASÍ að framkvæma verðkönnun í verslun Kosts í dag og krafðist þess að fulltrúar verðlagseftirlitsins yfirgæfu verslunina. Starfsfólk verðlagseftirlitsins benti Jóni Gerald á að verslunin væri opin almenningi og að lögum samkvæmt ættu verð að vera öllum aðgengileg. Starfsmenn verðlagseftirlitsins væru því í fullkomlega lögmætum tilgangi í versluninni og myndu halda verðkönnuninni áfram.
Jón Gerald sætti sig ekki við þetta og kallaði til lögreglu og óskaði eftir atbeina hennar við að vísa fulltrúum verðlagseftirlitsins á dyr. Lögreglan mætti á staðin og eftir að hafa ráðfært sig við lögfræðing þá taldi lögreglan ekki ástæðu til að aðhafast neitt. Fulltrúar verðlagseftirlitsins ætluðu þá að halda áfram að sinna sínu starfi en nú brá svo við að Jón Gerald hrifsaði gögn af starfsmanni verðlagseftirlitsins, hindraði för starfsmanna verðlagseftirlitsins um verslunina og hafði í frammi ógnandi tilburði. Starfsmenn verðlagseftirlitsins sáu því þann kost vænstan að hverfa á braut.
Þess má geta að Kostur er þar með eina verslunin sem ekki er með í verðkönnun ASÍ sem birt verður síðar í vikunni en bæði Nóatún og Víðir heimiluðu verðtöku eftir nokkurt hlé.
Tekið af heimasíðu ASÍ