Við vinnum fyrir þig

Translate to

Félagsfundur í Bárunni, stéttafélagi

Félagsfundur var haldinn í Bárunni, stéttafélagi þ. 24 september sl.

Ágæt mæting var á fundinn. Helsta efni fundarins var að kynna fyrir félagsmönnum niðurstöður kjarakönnunar sem framkvæmd var síðustu vikurnar í ágúst og er grunnur að kröfugerð Bárunnar fyrir komandi kjarasamninga. Sú kröfugerð er innlegg Bárunnar í sameiginlega kröfugerð Starfsgreinasambandsins.

Í máli formanns kom fram að meginkröfurnar, hækkun skattleysismarka, aukinn kaupmáttur og hækkun lægstu launa umfram aðra, væru í samræmi við kröfur annarra stéttafélaga innan Starfsgreinasambands Íslands. Greinilegt var á fundamönnum að lág laun á svæðinu eru mikið áhyggjuefni og þrýstingur á að barist verði gegn þeirri þróun. Formaður fór aðeins yfir þá vinnu sem unnin hefur verið í sameiginlegri kröfugerð SGS og taldi raddir Bárunnar hafa haft töluverð áhrif í þeirri vinnu. Þess má geta að Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar sinnir mörgum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna og er ástæða fyrir félaga Bárunnar til að vera ánægðir með það traust sem formanni félagsins er sýnt af öðrum félögum verkalýðshreyfingarinnar.

Á fundinum kom skýrt fram að félagsmenn telja að forystumenn félagsins ættu að vera enn duglegri til dæmis á vettvangi fjölmiðla og inn í fyrirtækjunum sjálfum. Nauðsynlegt væri að gera baráttu félagsins sýnilegri heima í héraði.

Ýmislegt fleira var rætt, vítt og breytt, á skemmtilegum og gagnlegum fundi. Félagið bauð fundarmönnum upp á kjötsúpu að hætti hússins og sterkt og gott kaffi á eftir.

 

 24.09.2013004