FINNSK STJÓRNVÖLD RÁÐAST Í AÐGERÐIR GEGN LAUNAFÓLKI
Fyrir skemmstu kynntu finnsk stjórnvöld nýjar tillögur sem miða að því að skerða einhliða laun og ýmis önnur ákvæði í kjarasamningum sem nú þegar hefur verið samið um. Það er skemmst frá því að segja að finnsk stéttarfélög brugðust ókvæða við tillögunum og höfnuðu þeim alfarið enda kveða þær á um meiriháttar skerðingar á yfir-, helgar- og næturvinnu, skerðingu á veikindarétti og sjúkradagpeningum, takmörkunum á orlofsrétti launafólks ásamt fleiru.
Eftir að stéttarfélögin í Finnlandi höfnuðu tillögunum formlega tilkynnti finnska ríkisstjórnin röð aðgerða/lagafrumvarpa sem munu koma illa niður á launafólki þar í landi, en finnsku stéttarfélögin áætla að áhrifin af boðuðum aðgerðum stjórnvalda muni nema 4-6% lækkun á launum. Og ekki nóg með það heldur muni aðgerðirnar bitna verst á viðkvæmum launahópum, s.s. fólki í hlutastörfum og konum.
Í ljósi þessa hafa hin ýmsu stéttarfélög í Finnlandi boðað til víðtækra mótmælaaðgerða þann 18. september til að mótmæla boðuðum aðgerðum stjórnvalda – aðgerðum sem brjóta m.a. í bága við bága samþykktir ILO og alþjóðlega og evrópska mannréttindasamninga.
Starfsgreinasambandið hefur sent finnskum félögum sínum stuðningsyfirlýsingu þar sem sambandið lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu þeirra gegn tillögum ríkisstjórnarinnar.
Tekið af heimasíðu SGS