Fjallað um veikindi og starfsendurhæfingu í nýjum kjarasamningi
Í kjarasamningum aðildarsamtaka ASÍ og SA, sem undirritaður var 5. maí 2011, er sérstaklega kveðið á um veikindi og starfsendurhæfingu og aðkomu launþega- og vinnuveitendasamtaka að stýrihópi á vegum VIRK. Í samningnum segir að samningsaðilar einsetji sér að endurskoða uppbyggingu á fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og vinnuvernd.
Í samningnum segir ennfremur: „Markmiðið er að stuðla að því að brugðist sé við veikindum með fyrirsjáanlegum hætti og að starfsmanni sem veikist bjóðist viðeigandi úrræði sem fyrst. Þetta felur m.a. í sér aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði til að tryggja það að einstaklingar sem veikjast eða slasast og eru í virkri starfsendurhæfingu hafi möguleika á að koma til baka í samræmi við vinnugetu sína á hverjum tíma.
Ljóst er að þessu markmiði verður aðeins náð ef gagnkvæmt traust ríkir milli atvinnurekenda og starfsmanna úr veikindum, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu í fyrirtækjum o.s.frv.
Samningsaðilar taka þátt í stýrihópi á vegum VIRK sem vinnur að þeim markmiðum sem nefnd eru hér að framan.
Sérstaklega verður fylgst með þróunarverkefni sem er að fara af stað á vegum VIRK um forvarnir og starfsendurhæfingu.“ Tekið er fram að samningsaðilar munu nýta sér þessa þekkingu og reynslu í starfi sínu.
VIRK fagnar þessari yfirlýsingu um endurskoðun á uppbyggingu á fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og vinnuvernd, því fjölmargar rannsóknir benda til að því lengur sem starfsmaður er fjarverandi frá vinnu, t.d. vegna veikinda og slysa, þeim mun líklegra er að hann falli út af vinnumarkaði.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að með því grípa eins fljótt inn í veikindaferli og auðið er þeim mun fyrr næst bati. Til dæmis getur hluti af bataferli viðkomandi starfsmanns verið að gefa honum færi á að koma til vinnu miðað við starfsgetu. Hægt er að bjóða upp á ýmsa möguleika eins og styttri vinnutíma, breytt verkefni, aðlögun að vinnuumhverfi eftir þörfum starfsmannsins eða fara jafnvel hægar af stað og bjóða starfsmanninn velkominn í kaffi, að sitja fundi og ýmsa viðburði.
Tekið af heimasíðu ASÍ