Fjölmenni í 1. maí göngu
Fjöldi fólks tók þátt í kröfugöngu dagsins á Selfossi sem lagði upp frá Austurvegi 56, klukkan 11 í morgun í blíðskaparveðri. Gangan var upphafið að hátíðahöldum á baráttudegi verkalýðsins á Selfossi. Lúðrasveit Selfoss og félagar úr hestamannafélaginu Sleipni fóru fyrir göngumönnum og gengu fylktu liði að Hótel Selfossi þar sem hátíðarhöldin fóru fram.
Ögmundur Jónasson fyrrverandi formaður BSRB hélt hátíðarræðu dagsins og Mjöll Einarsdóttir fulltrúi eldri borgara á Selfossi tók síðan við. Milli atriða flutti Karlakór Selfoss lög í tilefni dagsins. Unga kynslóðin kunni vel að meta Sveppa og Villa sem héldu uppi miklu stuði. Stéttarfélögin buðu börnum í stuttan reiðtúr í hestagerði og pylsur bakvið hótelið og blöðrurnar hennar Marie vöktu mikla lukku að venju meðal þeirra yngstu. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Selfoss sýndu einnig stórglæsilega fornbíla. Um 600 manns mættu í kaffi.
Stéttarfélögin þakka öllum þeim sem tóku þátt og óska öllum til hamingju með daginn.