Fjör á Öskudaginn
Óvenju mikið var um heimsóknir á þjónustuskrifstofuna í gær. Gestir voru flestir í yngri kantinum og komu færandi hendi með söng og gleði. Gaman að sjá hve mörg barnanna höfðu lagt metnað og alúð við gerð búningana og laganna sem þau sungu. Mörg sungu frumsamið efni eða tilbrigði við vel þekkt lög. gamlir standardar eins og Alouetta og Gamli Nói hljómuðu um skrifstofur og ganga og verður að viðurkennast að ekki könnuðust allir við textana sem sungnir voru. En þetta er það sem gerir þetta svo skemmtilegt. Við á skrifstofunni létum okkar ekki eftir liggja og mættum í okkar „fínasta“ pússi. Þar mátti sjá kúreka, mótorhjólatöffara, ömmu gömlu og álf með risavaxin eyru svo einhverjir séu nefndir. Þessi dagur er með þeim skemmtilegri á árinu og gaman að fá tækifæri til að taka á móti smáfólkinu og leysa það út með gjöfum með þakklæti fyrir frábæran söng. Þau áttu það líka svo sannarlega skilið, bæði fyrir dugnaðinn að arka bæinn enda á milli í misjöfnu veðri og ekki síður fyrir frumlegheit í búninga og textagerð.
Við þökkum kærlega fyrir okkur og er strax farið að hlakka til næsta Öskudags
Hér fylgja svo nokkrar myndir frá í gær.