Við vinnum fyrir þig

Translate to

SGS vísar kjaradeilu við SA til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa átt í viðræðum um nýjan kjarasamning frá því í október 2018. Á þeim tíma hafa aðilar átt tæplega 80 fundi um sértæk mál, sem og hátt í 30 fundi viðræðunefnda SGS og SA, um forsendur og innihald nýs kjarasamnings.

Ýmislegt hefur þokast áfram á undangegnum vikum í einstökum málum og umræðugrundvöllur til staðar á öðrum sviðum. Þrátt fyrir það er það mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra nema með  aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni, sem er eðlilegt skref í áframhaldandi vinnu.

Í samræmi við umboð frá samninganefnd Starfsgreinasambandsins frá 14. febrúar síðastliðnum, samþykkir viðræðunefnd SGS að vísa kjaradeilu Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir eftirtalin 16 aðildarfélög;
AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.

Eingreiðsla fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga

Báran, stéttarfélag vill minna félagsmenn, sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum, á sérstaka eingreiðslu sem á að greiðast átti þann 1. febrúar sl.
 
Kr. 42.500 hjá sveitarfélögunum
Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.
 
Kr. 45.000 hjá ríkinu
Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við þá sem eru í fullu starfi í janúar 2019. Þeir sem eru í hlutastarfi og/eða hafa starfað hluta úr mánuði skulu fá hlutfallslega greiðslu.

Vörukarfa 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar verðkönnunar Verðlagseftirlits ASÍ á matvöru á Norðurlöndunum er vörukarfa í Reykjavík mun dýrari en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Vörukarfa samansett af algengum matvörum úr helstu vöruflokkum er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki þar sem hún er ódýrust. Verðkönnunin var framkvæmd dagana 5.- 9. desember síðastliðinn í leiðandi lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Í könnuninni er borið saman verð á algengum neysluvörum í sambærilegum verslunum, vörur á borð við mjólk, osta, kjötvörur, grænmeti, ávexti og brauð.

40% verðmunur á Reykjavík og Oslo

Verðsamanburðurinn var gerður á vörukörfu sem inniheldur undirstöðumatvörur úr öllum helstu vöruflokkum í lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Samkvæmt úttektinni er vöruverð í lágvöruverðsverslunum hæst á Íslandi, samanborið við hin Norðurlöndin, en vörukarfan er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki sem var með lægsta vöruverðið. Það land sem er næst Íslandi í verðlagi er Noregur en vörukarfan í Oslo er samt sem áður 40% ódýrari en í Reykjavík.

Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman var dýrust í Reykjavík þar sem hún kostaði 7.878 kr. og næst dýrust í Noregi, þar sem hún kostaði 5.631. kr. Sambærileg vörukarfa í Kaupmannahöfn kostar 5.173 kr og 5.011 krónur í Stokkhólmi. Ódýrasta matvörukarfan var í Helsinki þar sem hún kostaði 4.729 kr. Verð á þeim vörum kannað var reyndist oftast hæst í Reykjavík eða í 12 tilvikum af 18 en í 8 tilvikum af 18 var vöruverðið lægst í Helsinki.

Matvörukarfa Norðurlönd lágvöruverðsverslanir

Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum

Mikill verðmunur var á öllum vöruflokkum í könnuninni. Þannig kostar kílóið af brauðosti (25-30%) 1.411 kr. á Íslandi en 1.235 kr. í Noregi sem er með næst hæsta verðið, 1.097 kr í Kaupmannahöfn, 678 kr. í Stokkhólmi, og 556 kr. í Helsinki. Þannig reyndist 152% verðmunur vera á kílóverði af brauðosti milli Reykjavíkur og Helsinki. Mikill verðmunur er einnig á kjötvörum en kíló af ungnautahakki kostar 1.598 kr. í Reykjavík, 1.326 kr í Oslo, 1.043 kr. í Kaupmannahöfn, 1.085 kr. í Kaupmannahöfn og 946 kr. í Helsinki, sem gerir 69% verðmun á hæsta og lægsta verði. Þá er 240% verðmunur á niðursneiddri skinku sem kostar 2.749 kr. kg á Íslandi, 1.058 kr. í Kaupmannahöfn, 1.035 kr. í Oslo, 813 kr. í Stokkhólmi og 808 kr. í Finnlandi þar sem verðið er lægst.

Verðmunurinn á grænmeti var sömuleiðis mikill en sem dæmi má nefna að 560% munur var á hæsta og lægsta kílóverði á gulrótum og 213% munur á hæsta og lægsta verði á kartöflum. Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um verðmun á milli höfuðborganna á vörum úr vörukörfunni.

Matvörur úr vörukörfu

Hér má sjá vörukörfuna í heild sinni (PDF)

Áþekkar niðurstöður og úr könnun Verðlagseftirlits 2006

Niðurstöður könnunarinnar eru í takt við það sem kom út úr sambærilegri verðkönnun sem Verðlagseftirlitið framkvæmdi árið 2006. Helsta breytingin er sú að meiri munur er á Íslandi og Oslo í dag en þá, en 40% verðmunur er á vörukörfunni nú en hann var einungis 3%. Stokkhólmur var ódýrasta borgin árið 2006 en í dag er Helsinki ódýrasta borgin.

Verðlag á Íslandi hæst í Evrópu

Hagstofan vakti nýlega athygli á uppfærðri tölfræði evrópsku hagstofunnar, Eurostat, um verðlag á Norðurlöndunum þar sem fram kemur að verðlag á Íslandi er það hæsta í Evrópu. Ísland er þar í flokki með Sviss og Norðurlöndunum þar sem verðlag er á bilinu 20-66% hærra en að meðaltali í Evrópu.

Um könnunina

Verðkönnunin var framkvæmd í stórmörkuðum og lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna 5.- 9. desember síðastliðinn. Farið var í leiðandi matvörukeðjur á hverjum stað þar sem gera má heildarinnkaup til heimilisins. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en ein tegund af tiltekinni vöru var fáanleg í versluninni, var ávallt valinn ódýrasti kosturinn sem uppfyllti sett skilyrði.

Borið er saman verð til neytenda út úr verslun og það umreiknað í íslenskar krónur mv. meðalgengi viðkomandi gjaldmiðils 5.-9. desember, dagana sem könnunin var framkvæmd.

Hér má sjá vörukörfuna með upplýsingum um kílóverð (PDF)

Per­sónu­afslátt­ur og skatt­leys­is­mörk hækka

Per­sónu­afslátt­ur ein­stak­linga verður 677.358 kr. fyr­ir árið 2019, eða 56.447 kr. á mánuði. Árleg­ur per­sónu­afslátt­ur hækk­ar sam­kvæmt því um 30.619 kr. milli ár­anna 2018 og 2019, eða um 2.552 kr. á mánuði. Hækk­un per­sónu­afslátt­ar nem­ur 4,7%. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu.

Þar kemur einnig fram að skatt­leys­is­mörk tekju­skatts og út­svars verða 159.174 kr. á mánuði að teknu til­liti til 4% lög­bund­inn­ar iðgjalds­greiðslu launþega í líf­eyr­is­sjóð sam­an­borið við 151.978 kr. á mánuði árið 2018. Hækk­un skatt­leys­is­marka milli ára nem­ur 4,7%.

Þegar tekj­ur ná skatt­leys­is­mörk­um byrj­ar launþegi að greiða út­svar til sveit­ar­fé­lags síns. Launþeg­inn byrj­ar hins veg­ar ekki að greiða tekju­skatt til rík­is­ins fyrr en tekj­ur ná 261.329 kr. á mánuði árið 2019, sam­an­borið við 249.514 kr. á mánuði árið 2018.

Í ný­samþykkt­um lög­um um breyt­ing­ar á tekju­skatti ein­stak­linga skulu þrepa­mörk tekju­skatts á ár­inu 2019 nú upp­reiknuð í réttu hlut­falli við hækk­un á vísi­tölu neyslu­verðs næstliðna tólf mánuði í staðinn fyr­ir breyt­ing­ar á launa­vísi­tölu. Þrepa­mörk tekju­skatts verða sam­kvæmt því við 11.125.045 kr. árs­tekj­ur, eða 927.087 kr. á mánuði fyr­ir næsta ár, að því er seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þar er einnig bent á að trygg­inga­gjald lækk­ar um 0,25 pró­sentu­stig um ára­mót­in.

Hægt er að lesa sig til um skatthlutföll einstaklinga vegna ársins 2019, persónuafsláttur á vef ríkisskattstjóra 

Mestur verðmunur á kjöti og konfekti

 

Mikill verðmunur var á jólamat milli verslana í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var á mánudaginn síðastliðinn. Mestur var verðmunurinn á algengum jólamat eins og kjöti, gosi, jólaöli og konfekti og er því ljóst að neytendur geta sparað sér töluverðar fjárhæðir þegar keypt er í jólamatinn. Allt að 1.400 kr. verðmunur var á kílóverðinu af hangilæri sem gerir 4.200 kr. verðmun ef 3kg hangilæri er keypt og 890 kr. verðmunur var á kílói af Nóa konfekti.


4.200 kr. verðmunur á hangilæri
Mestur verðmunur var á léttreyktum lambahrygg frá Kea eða 73% verðmunur á kílóinu. Lægsta verðið var í Bónus, 1.679 kr en það hæsta í Hagkaup, 2.899 kr sem gerir 1.220 króna verðmun. Þá var 54% verðmunur á kílói af úrbeinuðu Fjalla hangilæri eða 1.400 kr. verðmunur. Lægsta verðið var í Bónus, 2.598 kr. en það hæsta í Iceland 3.998 krónur. Ef við gefum okkur að keypt sé 3 kg hangilæri gerir það 4.200 króna verðmun.

Mikill verðmunur var á gosi eða upp í 134% verðmunur á hálfs líters dós af Hátíðarblöndu frá Vífilfelli. Lægsta verðið mátti finna í Bónus, 85 kr. en það hæsta, 199 kr. í Iceland en það gerir 114 kr. eða 134% verðmun. Þá var 58% verðmunur á 2l flösku af Pepsi Max, hæst var verðið í Hagkaup 339 kr. en lægst, 215 kr. í Bónus.

Verðmunur á konfekti var einnig mikill. Mestur var hann 135% eða 420 kr. á 300 gr. After eight kassa. Lægsta verðið, 319 kr. mátti finna í Fjarðarkaup en það hæsta, 749 kr. í Iceland. Mestur verðmunur í krónum talið var á kílói af Nóa konfekti, lægsta verðið, 2.999 mátti finna í Krónunni en það hæsta, 3.899 í Hagkaup sem gerir 30% eða 890 kr. verðmun.


Hægt að spara sér háar upphæðir
Verðmunur á jólamat getur fljótt orðið mikill enda í mörgum tilfellum um að ræða nokkuð dýrar vörur sem mikið er keypt af yfir hátíðarnar. Mörg þúsund króna verðmunur getur verið á sömu jólasteikinni milli verslana og þá eru upphæðirnar fljótar að telja þegar mikið er keypt af gosi auk þess sem mikill verðmunur getur verið á konfekti sem er tiltölulega dýr vara. Hér eru dæmi um tvær vörukörfur, önnur keypt í Bónus og Iceland en hin í Bónus og Hagkaup en þar má glöggt sjá hversu mikill verðmunur er á lítilli vörukörfu milli verslana. Neytendur geta því sparað umtalsvert með því að kaupa í jólamatinn þar sem verðið er lágt.

Hér má sjá verðkönnunina á jólamatnum í heild sinni


Verðbreytingar hraðar á þessum árstíma
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 55 tilfellum af 105 en Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 20 tilfellum. Hæstu verðin voru oftast í Iceland, 46 tilfellum af 105 en næst oftast í Hagkaup eða í 40 tilfellum. Lægstu verðin á kjöti og konfekti dreifðust þó á margar verslanir. Algengt er að verslanir séu með ýmis tilboð á þessum árstíma og eru verðbreytingar tíðar. Neytendur eru því hvattir til að fylgjast vel með tilboðum og verðbreytingum á næstu dögum.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Skeifunni, Krónunni Bíldshöfða, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Garðabæ, Kjörbúðinni Garði og Costco. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

 

 

Greiðsla sjúkradagpeninga

Greiðsla sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóð Bárunnar, stéttarfélags í desember 2018. Sjúkradagpeningar vegna desember verða greiddir fyrir jól, föstudaginn 21.desember 2018. Öll gögn þurfa að hafa borist í síðasta lagi þann 17. desember. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða afgreiddar í lok janúar.