Við vinnum fyrir þig

Translate to

Formaður Bárunnar í Sunnlenska Fréttablaðinu

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar Stéttarfélags var í viðtali í Sunnlenska Fréttablaðinu, sem kom út 15. janúar og svaraði þar nokkrum spurningum blaðamanns. Hér má sjá viðtalið í heild sinni.

 

Hvernig líst þér á væntanlega kjarasamningsviðræður stéttarfélaganna og hvernig sérðu fyrir þér að þær munu þróast?

 

„Framundan er mikill óvissutími. Markmið síðustu samninga var að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi og aukinn kaupmátt til framtíðar.  Kjarasamningurinn fól í sér ákveðið samkomulag um að mótuð hafði verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim samningum sem enn voru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbundu sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu á árinu 2014. Í samkomulaginu fólst einnig að menn beittu sér fyrir verðstöðugleika og aðhaldi í verðlagsmálum svo eitthvað sé nefnt.  Nú er staðan sú að í framhaldinu voru gerðir kjarasamningar sem fela í sér heldur ríflegri launahækkanir heldur en samkomulagið kvað á um. Ríki og sveitarfélag hafa hækkað gjaldskrár og ekki er lát á því. Matarkarfan hefur hækkað. Í ljósi þessa að þeir einu sem þurftu að axla ábyrg á stöðugleikanum var láglaunafólkið sem fékk 8.000 – 9.750 í hækkun. Þetta hljómar kunnuglega og ekki til þess fallið að greiða fyrir næstu kjarasamningum. Í dag sé ég ekki hvernig við getum sest að samningaborðinu nema við fáum töluverðar leiðréttingar áður en við förum að tala um kauphækkanir“, segir Halldóra.

 

Verður þetta erfiður vetur hvað varðar kjarasamninga og áttu jafnvel von á einhverjum verkföllum ?

 

„Já, Þetta verður erfiður vetur því það þarf að byggja upp traust okkar fólki til handa. Verkalýðshreyfingunni er mjög misboðið hvernig staðið hefur verið að málum í framhaldi af síðustu kjarasamningsgerð. Okkar fólk var tilbúið að fella samningana síðast. Þegar kemur að ákvörðun um verkföll er það spurningin fyrir hverju erum við tilbúin til að berjast og hverning við gerum það. Við erum að vígbúast og skoða þessi mál núna“.

 

 

Munuð þið líta á kjarasamninga lækna og kennara sl. vor þegar nýir samningar verða gerðir ?

 

„Að sjálfsögðu erum við að horfa á aðra samninga. Kennarar sögðu strax í síðustu lotu að þeir sættu sig ekki við 2,8% launahækkun, það lá alveg ljóst fyrir að þeir ætluðu ekki að vera með í þeirri vegferð. Þessi samræmda launastefna og það samkomulag sem gert var á vinnumarkaði hélt ekki og það voru komnir brestir í það þegar skrifað var undir almenna kjarasamninga þann 21. des. 2013. Kennarar héldu saman og gáfu ekkert eftir. Samtakamátturinn er sterkt afl og sýnir árangur þeirra í kjarasamningum“, segir Halldóra.

 

 

Hvernig er staðan hjá Bárunni, eru þínir félagsmenn illa settir hvaða varðar laun og þurfa nauðsynlega á launahækkunum á að halda ?

 

„Hér í okkar samfélagi er töluvert um taxtalaun. Algengustu mánaðarlaun í okkar umhverfi miðað við dagvinnu eru á bilinu 201.317 – 229.798. Þegar við spyrjum félagsmenn þessarar spurningar „hvað þurfa launin að hækka“ þá er svarið að launin þyrftu að vera 350.000 – 400.000. (niðurstöður kjaraþings í sept. 2014). Þetta eru ekki mikil vísindi við vitum öll að það lifir enginn af lægri tekjum en þessum“.

 

 

Hvernig leggst annars nýtt ár í þig sem formann Bárunnar og þína félagsmenn ?

 

„Hvert ár er ný áskorun og ég held að árið 2015 gefi ekki öðrum eftir miðað við þau verkefni sem framundan eru. Við getum verið nokkuð sátt  hjá Bárunni, stéttarfélagi, félagsmönnum fjölgar og nú erum við orðin fleiri en við vorum árið 2007 sem var algjört metár. Okkur hefur tekist að fá góðan kjarna félagsmanna til starfa hjá félaginu. Við höfum verið í góðu samstarfi við önnur félög sem rennir stoðum undir starfsemi okkar og vonandi leiðir til sterkari verkalýðshreyfingar á Suðurlandi“.

 

 

Hvernig er atvinnuástandið innan Bárunnar og er eitthvað nýtt að gerast í atvinnumálum á svæðinu ?

 

„Atvinnuástandið er í þokkalegum málum en því miður get ég ekki séð þann uppgang sem ég hefði viljað sjá. Ég hefði viljað sjá einhverja sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaganna á svæðinu varðandi atvinnuuppbyggingu. Fjölgun félagsmanna í Bárunni, stéttarfélagi er í ferðaþjónustunni,  þar er sjáanlega mikil aukning og vaxtabroddur.  Skipting eftir atvinnugreinum í félaginu hefur breyst. Það eru 40% félagsmanna í ferðaþjónustu og  30% í matvælaiðnaði. Bygginga og mannvirkjagerð eru 8% en var fyrir hrun töluvert stærra hlutfall að félagsmönnum“, segir Halldóra.

 

 

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri á þessum tímapunkti ?

 

„Já, Íslenskt samfélag þarf að fara í ákveðna naflaskoðun. Það þarf að skoða heildarmyndina hjá okkur. Við erum með langan vinnutíma, of lág laun og þar af leiðandi töluverða aukningu á örorku vegna vinnuálags. Langur vinnutími kemur meðal annars fram í meira álagi á fjölskyldulíf, minni framleiðni fyrirtækja sem gefur minna svigrúm til launahækkana“, segir formaður Bárunnar.

M.H.H.