Formannskjör: Frá Halldóru Sigríði Sveinsdóttur
Aðalfundur hvers félags er ákveðið uppgjör hvers árs bæði hvað varðar innra starf og afkomu félagsins. Kjarasamningar hafa verið umsvifamiklir á líðandi ári og enn er ekki séð fyrir endann á því. Kjarasamningar eru ákveðið ferli sem krefst heilmikillar vinnu. Félagið fór þá leið að senda út kjarakönnun til allra félagsmanna í september síðastliðnum þar sem félagar gátu komið sínum áherslum á framfæri. Samninganefnd félagsins, stjórn og trúnaðarmenn lögðu svo lokahönd á kröfugerðina. Niðurstaða kjarasamninganna voru því miður langt undir væntingum hins almenna félagsmanns. Enginn skilningur var af hálfu atvinnurekenda á lægstu laununum. Kjarasamningar voru felldir og síðan samþykktir með smá viðbót. Kjarasamningarnir áttu að fela í sér ákveðið samkomulag allra aðila vinnumarkaðarins um sameiginlega og samræmda launastefnu, tilraun til þess að koma böndum á verðbólguna og stöðugleika til framtíðar. Eins og komið hefur fram skrifaði undirrituð ekki undir þetta samkomulag og benti á að launþegar (ekki síst innan ASÍ) væru einir bundnir af þessu því. Samkomulagið heldur ekki eins og komið hefur á daginn. Nú verður að endurmeta stöðuna. Verkefnið framundan er stórt, viðamikið, þarfnast samvinnu og samstöðu.
Báran, stéttarfélag hefur haft skýra framtíðarsýn á síðastliðnum árum. Að veita félagsmönnum góða þjónustu, komast til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar og ekki síst að fjölga trúnaðarmönnum og styrkja stöðu þeirra. Í stuttu máli er þetta að ganga eftir. Trúnaðarmennirnir eru hryggstykki hvers félags og án þeirra værum við ekki á þeirri leið sem við nú erum. Trúnaðarmannakerfi félagsins er mjög virkt. Þetta er þéttur og góður hópur sem stendur þétt við bakið á sínu félagi sem er ómetanlegt.
Félagið hefur lagt áherslur á að vera í sterku samandi við önnur félög á svæðinu. Árangurinn hefur sýnt sig á ýmsan hátt og má þar nefna að tekist hefur að gera 1. maí að öflugum baráttudegi hér á svæðinu. Dagskráin er fjölskylduvæn og ungt fólk hefur verið duglegt að mæta. Félagsmenn hafa getað komið og hitt starfsfólk stéttarfélaganna. Félagið hefur í samvinnu við önnur stéttarfélög haldið sameiginleg námskeið fyrir trúnaðarmenn á svæðinu auk trúnaðarmannaráðstefnu. Einnig hafa félögin verið öflug að sýna þingmönnum okkar aðhald með reglulegum opnum fundum með þeim.
Það er öflugt og gott starfsfólk á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna sem greitt hefur götu margra félagsmanna sem leitað hafa til félagsins til að fá upplýsingar um kjarasamninga og í mörgum tilfellum hefur félagið aðstoðað við lausn ágreiningsmála. Eitt af stærri málum á síðustu mánuðum er baráttan við að fá menntun leikskólaliða viðurkennda. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki viljað viðurkenna rétt leikskólaliðanna við að fá menntun þeirra metna til launa. Félagið tók þá ákvörðun að láta reyna á réttinn fyrir Félagsdómi og á niðurstaðan að liggja fyrir á næstu dögum. Ég tel þetta vera mikið réttlætismál og ekki síst þegar um er að ræða hluta af þeirri baráttu að leiðrétta laun kvenna.
Jæja góðir félagar um leið og ég óska öllum gleðilegs sumars vil ég minna á 1. maí hátíðarhöldin en kjörorð dagsins er „Samfélag fyrir alla“.
Aðalfundur félagsins er þann 5. maí nk. kl. 19:00. Mér þætti vænt um að sjá sem flesta félagsmenn mæta á aðalfund.
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.