Við vinnum fyrir þig

Translate to

Frá almennum félagsmönnum innan aðildafélaga SGS

Eftirfarandi bréf hefur verið sent til formanns Starfsgreinasambandsins og til Morgunblaðsins:

Ástæðan er að við erum nokkur hópur félagsmanna víða af landinu sem er mjög ósáttur við afgreiðslu framkvæmdarstjórnar Starfsgreinasambandsins í kjölfarið á skoðun sem framkvæmd var á fjárreiðum sambandsins. Erfiðlega hefur gengið að fá haldbær svör og því er þessi leið farin. Formaður sambandsins lagði fram þá tillögu sem samþykkt var og því er þessum spurningum beint til hans. Ekki var einhugur um þessa afgreiðslu innan stjórnarinnar og vildi hluti stjórnar fara aðra leið sem hefði verið eðlilegri að okkar mati.

 

Við teljum að meirihluti framkvæmdastjórnar hafi tekið ranga ákvörðun um starfslok framkvæmdarstjóra og erum ósátt við þá ákvörðun að skoða ekki fjármálin lengra aftur í tímann fyrst á annað borð er grunur um misferli. Það er krafa að það verði síðar skoðað.

Eins og þetta tiltekna mál lítur út fyrir okkur þá er ekkert sem segir okkur að hagsmunir hins almenna félagsmanns hafi verið hafðir að leiðarljósi. Frekar hafa menn tilfinningu fyrir því að þarna sé verið að halda hlífiskildi yfir ákveðnum aðilum til að tryggja að þeir þurfi ekki að taka afleiðingum gerða sinna frekar en nokkur annar í þessu samfélagi sem á annað borð hefur komist í einhverja ábyrðarstöðu. Við teljum þetta bera vott um hugarfar sem á ekki heima í verkalýðsbaráttu þar sem hver króna í umslag launamannsins kostar blóð, svita og tár og baráttan fyrir að halda því sem náðst hefur er hörð og óvægin.

Málið snýst um gagnrýni okkar er á vinnubrögð og hugarfar forystunnar. Við teljum að verkalýðshreyfingin eigi að ganga í fararbroddi með bætt vinnubrögð og gegnsæi í ákvörðunum sínum og gerðum

Forystumenn okkar eru leiðtogar þess hóps í þessu samfélagi sem hvað minnst ber úr býtum á vinnumarkaðnum og teljum að öll vinnubrögð eigi að vera hafinn yfir allan vafa um að eitthvað annað ráði en hagsmunir félagsmanna.

Við teljum ennfremur að á tímum sem þessum þar sem launamenn eiga í vök að verjast þá eigi það að vera forgangsmál okkar að endurvekja traust á verkalýðshreyfingunni og safna félagsmönnum á bak við forystuna svo viðsemjendur okkar fari ekki í neinar grafgötur með það afl sem sameinuð verkalýðshreyfing er.

Við teljum almennt að vinnubrögðum innan verkalýðshreyfingarinnar sé í mörgu áfátt þrátt fyrir að þar séu innanborðs hið mætasta fólk sem ekki má vamm sitt vita. Við teljum nauðsynlegt að málefni okkar séu rædd opinskátt og séu teknar ákvarðanir sem klárlega vekja upp spurningar hjá félagsmönnum þá þurfi skýringar að fylgja svo ekki skapist andrúmsloft tortryggni og sundrungar. Það er það síðasta sem við þurfum á að halda núna. Mál af þessu tagi býður upp á spurningar sem félagsmenn eiga fullan rétt á að fá svör við frá sínum forystumönnum.

Bak við ykkur forystumenn stendur stór hópur fólks sem er tilbúinn til að styðja ykkur til allra góðra verka. Til að vekja áhuga og kraft þessa fólks þá þarf öll umræða að vera uppi á borðinu og öll vinnubrögð hafin yfir allan vafa.

Við munum halda áfram þessari baráttu okkar áfram þar til menn eru tilbúnir til að setjast niður og ræða stöðuna og hvernig hægt er að bæta hlutina. Þessi umræða þarf að fara fram sem víðast, ekki bara í hópi forystumanna heldur innan félaganna, á síðum blaðanna, í netheimum og ekki síst í hjarta hvers þess sem gefur sig út fyrir að starfa til heilla launamönnum.

Að endingu óskum við eftir að þetta verði birt á heimasíðu félags yðar, félögum til upplýsingar.


Til formanns Starfsgreinasambands Íslands, Björns Snæbjörnssonar


Á fundi SGS 26 maí síðastliðinn var samþykkt tillaga Björns Snæbjörnssonar um starfslok Skúla Thoroddsen vegna trúnaðarbrests. Í afgreiðslunni fellst að gerður verði stafslokasamningur sem tryggir Skúla laun á uppsagnafresti ásamt orlofi og áunnum réttindum og að hann verði einungis endurkrafinn um hluta þess fjár sem hann er grunaður um að hafa dregið sér. Spyrja verður hvort þessi viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar séu viðtekin venja komi sambærileg mál upp innan raða forystumanna hreyfingarinnar og hvort þeir formenn félaga sem stóðu að umræddri samþykkt séu með henni að víkja hreyfingunni undan ábyrgð á spillingu innan eigin raða. Þá viljum við undirritaðir félagsmenn stéttarfélaga í Starfsgreinasambandi Íslands, fá svör formanns SGS við eftirfarandi spurningum og óskum eftir að þau svör verði birt sem fyrst á opinberum vettvangi, almennum félagsmönnum til glöggvunar.

 

 


1.
Hvers vegna er grun um refsivert misferli í starfi ekki fylgt eftir með ákæru?


2.
Voru hagsmunir félagsmanna í SGS hafðir að leiðarljósi þegar þú lagðir fram þá tillögu sem samþykkt var af meirihluta framkvæmdarstjórnar?


3.
Hvað kostar þessi starfslokasamningur?


4.
Telur þú sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni að þessi viðbrögð við skýrslu Deloitt séu til þess fallin að auka traust á verkalýðshreyfingunni?


5.
Telur þú sem formaður stærstu samtaka launþega innan Alþýðusambands Íslands ekki eðlilegt að birta frétt á heimasíðu sambandsins um gagngera breytingu í starfmannahaldi SGS með útskýringum?

 


Þessum spurningum er beint til Björns Snæbjörnssonar formanns SGS sem lagði fram tillögu fyrir framkvæmdarstjórn Starfsgreinasambands Íslands um að semja við Skúla Thoroddsen um starfslok þrátt fyrir að rökstuddur grunur sé um umboðssvik og fjárdrátt. Við teljum að Björn verði að útskýra fyrir okkur sauðsvörtum almúganum hvers vegna sumir eru jafnari fyrir lögunum en aðrir, svo við getum tekið mið af því í okkar störfum sem við kunnum að takast á hendur fyrir verkalýðshreyfinguna.

 


Loftur Guðmundsson, Bárunni stéttarfélagi


Ragnhildur Eiríksdóttir, Bárunni stéttarfélagi


Hjalti Tómasson Bárunni stéttarfélagi


Agnes Einarsdóttir, Framsýn stéttarfélagi


Olga Gísladóttir, Framsýn stéttarfélagi


Svava Árnadóttir, Framsýn stéttarfélagi


Valdimar Gunnarsson, Einingu – Iðju


Tryggvi Jóhannesson, Einingu – Iðju


Ólafur P. Agnarsson, Einingu – Iðju


Óskar Guðjón Kjartansson, Drífanda stéttarfélagi


Albert Sævarsson, Drífanda stéttarfélagi


Gunnhildur Elíasdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga


Eygló Jónsdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga


Sigurjón Skæringsson, Eflingu, stéttarfélagi

 

 

Afrit sent á mbl.is

Formenn aðildafélaga Starfsgreinasambands Íslands