Við vinnum fyrir þig

Translate to

Frá samstöðuhópi um Heilbrigðisstofnun Suðurland

Samstöðuhópur um HSu var á fundi með velferðarráðherra Guðbjarti Hannessyni ásamt starfsfólki og stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þriðjudaginn 15. nóvember sl. Á fundinum fór ráðherra yfir helstu kennitölur heilbrigðismála síðastliðin ár jafnframt því að útskýra hverjar breytingar hefðu orðið á málaflokknum frá efnahagshruninu.
Fjölmargar fyrirspurnir komu fram á fundinum og ljóst að Sunnlendingar hafa miklar áhyggjur af framtíðarhorfum Heilbrigðisstofnunarinnar. Margir fundarmanna lýstu áhyggjum sínum af boðuðum niðurskurði og töldu að nú þegar væri of langt gengið. Fram kom í máli heilbrigðisráðherra að stefnt væri að því að halda skurðstofu HSu áfram opinni á dagvinnutíma og fagnar samstöðuhópurinn því. Hópurinn telur einsýnt að tekið verði tillit til þess þegar fyrirhugaðar breytingar á húsnæði stofnunarinnar verða skipulagðar jafnframt því að tækjabúnaður verði uppfærður.

Ráðherra sagði einnig að rétt væri að framlag til sjúkratrygginga hefði hækkað þrátt fyrir niðurskurð á öllum öðrum sviðum og vekur það spurningar um hvort verið sé að flytja kostnað til sérfræðinga í Reykjavík. Ekki fengust um það skýr svör frá ráðherra.

Hann taldi að með þeim niðurskurði sem nú er boðaður væri botninum náð og ekki yrði um frekari niðurskurð að ræða á fjárlögum 2013.

Samstöðuhópur um Heilbrigðisstofnun Suðurlands lýsir miklum áhyggjum af boðuðum niðurskurði ofan á þann sem nú þegar hefur skert þjónustu við Sunnlendinga verulega. Samstöðuhópurinn telur að að sá sparnaður sem velferðaráðuneytið telur sig ná fram með boðuðum niðurskurði komi að miklu leiti fram í auknum kostnaði þeirra sem þjónustuna þurfi að nota.