Við vinnum fyrir þig

Translate to

Frábær fundur með trúnaðarmönnum

Í gærkvöldi var haldinn fundur með stjórn og trúnaðarmönnum Bárunnar, stéttarfélags vegna komandi kjarasamninga.

Á fundinum var farið vítt og breytt yfir stöðuna en megintilgangur fundarins var að finna samhljóm innan félagsins um hvaða stefnu skyldi farið með inn í samninganefnd Starfsgreinasanmbandsins. Greinilegt er að töluverð óvissa var meðal fundarmanna um stöðuna en beðið er eftir útspili ríkisvaldsins í skattamálum meðal annars. Sami skilningur var milli stjórnar og trúnaðarmanna um að ekki væri raunhæft að leggja niður fastar línur fyrr en það lægi ljóst fyrir hvernig málum á alþingi reiddi af. Mikill hugur var í fólki og greinilegt að menn eru tilbúnir í töluvert harðari slag en oft áður.

Lág laun á félagssvæðinu komu mjög til tals og menn sammála um að finna yrði leiðir til að komast upp úr því laglaunaumhverfi sem hér hefur skapast. Öllum fannst það í hæsta máta óeðlilegt að innan fyrirtækja í þeim greinum sem helst gerðu sig út fyrir að vera helsti vaxtabroddur í íslensku efnahagslífi, þætti það eðlilegt að halda launum niðri við hungurmörk og helst neðar. Var svört atvinnustarfsemi nefnd í því sambandi en með sama áframhaldi þá verður til annað hagkerfi sem litlu skilar til starfsmanna og þjóðarbúsins, ef það er þá ekki þegar orðið staðreynd.

Báran hefur nú upp á síðkastið lagt áherslu á að efla trúnaðarmannakerfi sitt. Trúnaðarmenn eru í raun hryggstykkið í starfi hvers verkalýðsfélags og mikilvæg tenging milli hins almenna félagsmannas og forystunnar. Það er því félögunum nauðsynlegt að hafa öfluga trúnaðarmenn á sínum snærum.

Það verður ekki annað sagt en þeir trúnaðarmenn sem nú starfa með félaginu séu kröftugir og tilbúnir til að leggja hönd á plóginn í því eilífðarverkefni að koma kjörum sínum og félaga sinna í það horf að sómi sé að. Félagið vill að endingu hvetja alla sem á annað borð hafa áhuga á stéttar og félagsmálum að gera sig sýnileg og taka þátt í að lyfta samfélaginu á þann stall sem því ber.