Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fremstar meðal jafningja

Í veftímariti Alþýðusambandins sem kom út í dag í tilefni af 1. maí er viðtal við Halldóru S. Sveinsdóttur formann Bárunnar.  

Sjá meðfylgjandi grein

 

Orðræðan gegn konum miklu illskeyttari

Nafn: Halldóra Sigríður Sveinsdóttir. 

Staða: Formaður í Bárunni, stéttarfélagi.  

Lengd formannssetu: Frá 2010 til dagsins í dag.

Lífsmottó: Vertu þú sjálfur. 

 

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?  

Staða kvenna innan ASÍ er að mörgu leyti sérstök. Sem betur fer hefur staðan breyst og konum fjölgað í forystu félaga á landsvísu og það er mjög jákvætt. Hins vegar er ennþá langt í land að fullu jafnrétti er náð. Það sem hindrar konur að bjóða sig fram í forystu er að orðræðan gegn þeim er miklu illskeyttari og þær eru oftar en ekki kenndar við einhverja pólítíska flokka, taldar boðberar einhverjar stefnu sem auðveldar að keyra niður mannorð þeirra og kemur þeim ekkert við.  Með öðrum orðum eru að mati karlægra sjónarmiða ekki sjálfstæðar heldur boðberar annarra.  Síðan eru þær mun gjarnari að verða fyrir aftökum á netmiðlum ef karllægum sjónarmiðum er ekki fylgt eftir.

Mynd: Halldóra Báran
Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?

Árið 2010 var komið að máli við mig og ég beðin um að taka við formennsku í félaginu. Ég hafði ekki leitt hugann að því en ákvað að slá til eftir smá umhugsunarfrest. Ég er fljót að segja já ef til mín er leitað.  Það kemur manni skemmtilega á óvart hvað þetta er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt starf. Það er enginn dagur eins og alltaf eitthvað nýtt til þess að takast á við. Maður hefur kynnst fullt af góðu fólki og eignast góða vini.  

Réttlætiskenndin í blóð borin

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Það eru forréttindi að alast upp í sjávarþorpi eins og Þorlákshöfn. Umræður á mínu æskuheimili voru um fiskveiðar, vinnu við fiskveiðar og kaup og kjör. Við vorum svo lánsöm í skólanum okkar að hafa róttækan vinstri sinnaðan kennara flest grunnskólaárin sem sáði góðum og gildum  fræjum. Réttlætiskenndin er mér í blóð borin og hef aldrei getað látið kyrrt liggja ef á einhverjum er brotið. Ég hef verið svo heppin að kynnast mörgu góðu og heiðarlegu fólki. Fyrirmyndir eru margar þá sérstaklega þær sem eru alltaf sjálfum sér samkvæmar, heiðarlegar og góðar manneskjur. Svo einfalt er það. 

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?  

Konum í hreyfingunni hefur ekki auðnast að sýna hverri annari þann styrk sem til þarf til þess að greiða götu annarra kvenna. Þegar Drífa Snædal var hrakin úr embætti heyrðist ekkert frá neinum hópi kvenna innan hreyfingarinnar. Ég hefði  viljað sjá sterka kvennahreyfingu stíga fram og segja „þetta líðum við ekki“ Konur ná ekki að vera fyrirmyndir vegna þeirrar menningar sem hefur viðgengist innan hreyfingarinnar. Það eru þeir sem ná að berja sér á brjóst helst í fjölmiðlum án nokkurrar innistæðu sem eru „hetjurnar“ en ekki þær/þeir sem sannarlega eru hetjurnar.    

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust? 

Hreyfingin, karlar og konur eru flest hugsjónafólk með sterka réttlætiskennd. Það er oftast ekki mikið um ólíkar áherslur heldur ólíka nálgun sem gerir það að verkun að staðan innan hreyfingarinnar verður óstöðug. Í öllum umræðum er nálgun kynjanna oft með ólíkum hætti. Konur vilja skoða málið, lúslesa allt og hafa á hreinu hvernig á að framkvæma hlutina á meðan karlar fara yfir „stóru myndina“. Konur eru almennt ekki stóryrtar.  Kynjahlutföll þurfa að sjálfsögðu að vera sem jöfnust en sum sambönd/félög samanstanda af miklum meirihluta karlkyns sem skekkir að sjálfsögðu heildarmyndina því miður.  

Fyrsti kvenleiðtogafundur ASÍ

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?   

Það er eiginlega alveg undarlegt að ekki hafi tekist að sameina konur í sterka heild sem hefur rödd. Kvennaráðstefnur hafa verið nokkrar á undanförnum árum en einhvern veginn hefur samstaðan ekki náð flugi sem segir að það er ekki nóg. Eftir síðustu kvennaráðstefnu var ályktunun ráðstefnunnar ekki tekin til efnislegrar umræður heldur beittu ákveðnir aðilar öllu sínu valdi til þessa að gera þetta allt ótrúverðugt og marklaust. Fyrsti kvennleiðtogafundurinn var haldinn núna í mars sá fyrsti í sögu ASÍ. Það voru áhugaverðir fyrirlestrar um allt sem við kemur okkur í hreyfingunni. Hvernig við hugsum kynslóð eftir kynslóð og þær hindranir sem okkur er í blóð bornar án þess að taka eftir því. Hvernig „kvennlæg störf“ eru vanmetin þegar kemur að jafnvirði starfa og hvar er sóknarfæri fyrir okkar láglaunaða kvennahópa. Það eru mörg krefjandi verkefni framundan og áskorunir fjölmargar. Kvennleiðtogafundurinn hitti alveg í mark var virkilega hvetjandi, fróðlegur, faglegur og vonandi sá fyrsti af mörgum.