Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fréttabréf Bárunnar

Kæri félagi

 

 

 

Af hverju er greitt í stéttarfélag?

Mikill misskilningur er á almennum vinnumarkaði um það hvort hægt sé að sleppa greiðslu iðgjalda í stéttarfélag eða hvort velja megi stéttarfélag eftir geðþótta þvert á félagssvæði og jafnvel kjarasamninga. Samkvæmt lögum nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina og greiða í fræðslusjóði, sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.

Má velja í hvaða stéttarfélag er greitt?

Það sem ræður stéttarfélagsaðild er starfsgrein sem starfsmaður starfar í og félagssvæði sem hann starfar á. Stéttarfélög gera kjarasamninga um ákveðnar starfsgreinar. Greitt er af starfsmanni  til þess félags sem félagssvæðið tilheyrir og gerir kjarasamning um það starf sem starfsmaður sinnir.

Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?

Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna til hvaða félags á að  greiða iðgjöldin. Ef tvo félög eða fleiri hafa gert kjarasamning um sömu störf á sama félagssvæði skal starfsmaðurinn velja félag við gerð ráðningarsamnings.

Félagið hvetur félagsmenn til þess að upplýsa vinnufélagana (sérstaklega þá sem koma erlendis frá) um réttindi þeirra og benda þeim á að hafa samband við félagið ef eitthvað er.

 

Ásatún 12 Akureyri

Borið hefur á því að ekki hafi verið farið eftir þeim reglum sem Akureyrarbær hefur sett varðandi flokkun sorps í íbúð félagsins að Ásatúni 12 Akureyri. Það eru mjög góðar leiðbeiningar í íbúðinni varðandi flokkun og grendargámar eru á leiðinni í Bónus (mjög stutt frá). Viljum við hvetja félagsmenn til þess að fara eftir settum reglum.

Sóltún 28 Reykjavík

Félagsmenn athugið lyklaafhending vegna Sóltúns í Reykjavík er á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56 Selfossi. Skrifstofan er opin frá 08:00-16:00 alla virka daga.

 

Kjarasamningur

Sólheima ses og Bárunnar, stéttarfélag

Kjarasamningur sem undirritaður var þann 27. júlí sl. hefur verið samþykktur. Félagsmenn á kjörskrá voru 60, 23 greiddu atkvæði (38,3% kjörsókn). 74 % sögðu já, 13,4% nei og 13,4% tóku ekki afstöðu. Félagið óskar félagsmönnum til hamingju með samninginn.

 

 

Kjarasamningur

Skaftholts og Bárunnar, stéttarfélag

Kjarasamningur sem undirritaður var þann 17. ágúst sl. hefur verið samþykktur. Félagsmenn á kjörskrá voru 13, 9 greiddu atkvæði (69,2% kjörsókn). 100% sögðu já, 0% nei og 0% tóku ekki afstöðu. Félagið óskar félagsmönnum til hamingju með samninginn.

 

 

Er stefnu eða viðbragðsáætlun á þínum vinnustað gegn einelti og annarri ámælisverðri framkomu.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi á vinnustöðum ógnar heilsu og líðan fólks. Með góðri stjórnun, forvörnum og skjótum viðbrögðum er hægt að koma í veg fyrir slíkt. Starfsmenn, sem orðið hafa fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi eða hafa vitneskju um slíkt á vinnustað, eru hvattir til að upplýsi atvinnurekanda sinn eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, svo hægt sé að bregðast við eins fljótt og kostur er.

(tekið af vef vinnueftirlitsins)
Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. (tekið af vef vinnueftirlitsins.)