Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fréttabréf Bárunnar

20 ára afmæli Bárunnar, stéttarfélags

Báran, stéttarfélag var stofnað 25. júní 2002 og  fagnar því 20 ára afmæli á þessum tímamótum. Saga Bárunnar er hins vegar mun eldri en það. Á þessum stofnfundi lauk sameiningu þriggja félaga á svæðinu. Verkalýðsfélagið Þór Selfossi, Verkalýðs- og sjómannafélagið Bjarmi á Stokkseyri og Verkalýðs- og sjómannafélagið Báran á Eyrarbakka. Áður hafði bílstjórafélagið Ökuþór sameinast Verkalýðsfélaginu Þór. Báran, stéttarfélag telur 20 ár í þeirri mynd sem nú er. Við sameininguna varð félagið stærsta stéttarfélagið á Suðurlandi og þótti vel við hæfi að nafn félagsins yrði Báran, stéttarfélag. Báran á Eyrarbakka var stofnað í febrúar 1903 og var með fyrstu stéttarfélögunum á landinu og elsta félagið sem átti aðild að þessari sameiningu. Félagið nær aftur til 1903 og telur það 119 ár.

Fyrsti formaður hins nýja félags Báran, stéttarfélag  var Kristján Jónsson. Félagssvæðið er Árnessýsla (Sveitarfélagið Árborg, Flóahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð og Grímsnes og Grafningshreppur) utan Ölfuss. Félagið er eitt af 19 félögum innan Starfsgreinasambands Íslands, er aðili að Sjómannasambandi Íslands og eitt af aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands. Félagsmenn starfa í ýmsum starfsstéttum matvælaiðnaði, byggingariðnaði, umönnun, ferðaþjónustu, iðnaðarframleiðslu og svo framvegis. Í takti við uppsveifluna í atvinnulífinu á síðustu árum og fjölgun erlends vinnuafls hefur Báran vaxið og dafnað undanfarin ár með tilkomu ferðaþjónustunnar. Kynjahlutföll félagsins eru nokkuð jöfn en það var ekki fyrr en árið 1958 sem samþykkt var að konur gætu gengið í félagið. Síðan hafa þrjár konur gegnt formennsku í félaginu. Ingibjörg Sigtryggsdóttir var fyrsta konan sem gegndi formennsku í félaginu. Hún var kosin formaður Verkalýðsfélagsins Þórs 1982. Helsta hlutverk félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna. Semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna. Vinna að fræðslu, menningarmálum og sameina alla starfandi launamenn á svæðinu. Daglegur þáttur í starfsemi félagsins er m.a. túlkun og gerð kjarasamninga, útreikningur launakrafna, útleiga orlofshúsa, afgreiðsla styrkja og dagpeninga og skólakynningar.

Vinnustaðaeftirlit er stór þáttur í starfsemi félagsins. Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum tóku gildi í maí 2010. Félagið hefur frá upphafi haldið úti vinnustaðaeftirlitsfulltrúum í samvinnu við önnur félög. Fulltrúar félagsins fara á vinnustaði, fylgja eftir kjarasamningsbundnum réttinum, fara yfir réttindi, skyldur og starfsemi félaganna. Er þetta nauðsynlegur þáttur í starfsemi félaganna og góð leið til þess að nálgast þá sem eru af erlendu bergi brotnir og þekkja lítið til kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði. Skrifstofa félagsins er að Austurvegi 56 Selfossi. Þrjú stéttarfélög reka og eiga saman Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi (ÞSS) ( VR, FIT og Báran, stéttarfélag). Auk þess er Virk starfsendurhæfing  og Festa lífeyrissjóður á sama stað. Félagið hefur lagt ríka áherslu á samvinnu við önnur stéttarfélög.

Félagið er aðili að fjórum menntasjóðum. Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Sjómennt. Allt eru þetta öflugir sjóðir sem reyna eftir fremsta megni að hvetja og styrkja félagsmenn til náms og námskeiða. Sjúkrasjóður félagsins greiðir annars vegar dagpeninga vegna veikinda og hins vegar styrki sem samræmist stefnu félagsins í forvörnum. Sjúkrasjóður félagsins er einnig með íbúð í Reykjavík í þeim tilgangi að aðstoða þá sem þurfa vegna veikinda að dvelja í Reykjavík. Orlofssjóður er með fjögur glæsileg orlofshús og eina orlofsíbúð. Markmiðið með orlofssjóði er að leiga félagsmönnum orlofshús á sanngjörnu verði.  falleg og vel útbúin hús þar sem engu er tilsparað. Vinnudeilusjóður hefur það hlutverk að greiða út dagpeninga til félagsmanna sem verða tekjulausir í verkfalli. Trúnaðarmenn félagsins eru hryggjarstykkið í starfsemi félagsins og hafa lagt sig fram í baráttunni um brauðið. Trúnaðarmenn eru ósérhlífin hópur sem er ómetanlegt í þeirri baráttu sem fram fer.

Stjórn félagsins skipa 7 aðalmenn og 3 til vara. Halldóra Sigr. Sveinsdóttir hefur gengt formennsku í félaginu frá 2010. Örn Bragi Tryggvason er varaformaður. Meðstjórnendur eru Magnús Ragnar Magnússon, Ragnhildur Eiríksdóttir, Jón Þröstur Jóhannesson, Ingvar Garðarsson og Helga Flosadóttir. Til vara eru K. Hjalti Tómasson, Hildur Guðjónsdóttir og Sylwia Konieczna. Hjá félaginu starfa Marta Kuc, K. Hjalti Tómasson,  Þórarinn Smári Thorlacius, Þór Hreinsson og er formaður félagsins einnig starfandi á skrifstofu.

Fyrir hönd félagsins sendir stjórn öllum þeim sem komið hafa með einhverjum hætti að starfsemi félagsins síðastliðin ár bestu þakkir og óskar félagsmönnum til hamingju með 20 ára afmælið.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

Breytingar á heilsu- og forvarnarstyrkjum.

Gerðar voru breytingar á heilsu- og forvarnarstyrkjum voru samþykktar á aðalfundi Bárunnar þann 16. maí 2022 og tóku þær gildi 1. júní 2022.

Gerðar voru breytingar á eftirfarandi styrkjum:

Breytingar eru skáletraðar.

Sjúkraþjálfun, Sjúkranudd og Kírópraktor: Meðferð hjá eftirfarandi aðilum: löggiltum sjúkraþjálfara, sjúkranuddara eða kírópraktor. Greitt er 50% af kostnaði að hámarki 5.000.-kr í fyrsta skipti, hámark 2.000.-kr í hvert skipti eftir það.Hámark 36 skipti á hverjum 12 mánuðum (óháð félagsgjaldi). Yfirlit meðferða verður að fylgja.

Laser/Lasik aðgerð eða augasteinaskipti: Félagsmaður sem hefur greitt félagsgjöld síðastliðinn þrjú ár samfleytt verði greitt allt að kr. 120.000 vegna laseraðgerða eða augasteinaskipta miðað við fullan rétt sbr. gr. 5.6.. Þó að frádregnum öðrum styrkjum síðastliðna 12 mánuði. (bætt var inn augnsteinaskiptum).

Líkamsrækt/heilsuefling: Greitt er 50% af kostnaði þó að hámarki 50.000 kr (var 40.000 kr) á hverju almanaksári. Skilgreining á heilsueflingu er viðurkenndar íþróttagreinar samkvæmt ÍSÍ – Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (https://isi.is/um-isi/vidurkenndar-ithrottagreinar/) og fellur undir að vera æfinga og/eða aðildargjöld.

Tannlæknir: Styrkur vegna tannlækninga er að hámarki kr. 20.000 kr (var 15.000 kr) á 12 mánaða tímabili.

Fæðingarstyrkur: Greitt er kr. 120.000 kr. (var 60.000 kr) Gögn sem þurfa að fylgja er fæðingarvottorð. Réttur er reiknaður út frá fæðingardegi barns. Greiða þarf félagsgjöld í 12 mánuði samfleytt fyrir fæðingardag barns. Fæðingarstyrkur er óháður öðrum styrkjum.

Hámark styrkja hækkar úr 85.000 kr í 100.000 kr.

 

ATH að allar greiðslukvittanir sem fylgja umsóknum og voru greiddar fyrir 1. júní 2022 verða afgreiddar miðað við upphæðir fyrir breytingar

 

 

 

 

 

Eftirlit og ábendingar

Við hvetjum félagsmenn okkar til að hafa sem telja að verið sé að brjóta á starfsfólki að senda okkur ábendingu þess efnis. Eins og við vitum er mikill uppgangur á vinnumarkaðnum og þá sérstaklega í ferðaþjónustunni og eru þar margir starfsmenn af erlendu bergi brotnir sem þekkja ekki réttindi sín og né að þau séu að borga í stéttarfélög yfir höfuð. Við erum með virkt vinnustaðareftirlit en við viljum endilega virkja sem flesta til að hafa augun opin og passa að ekki sé verið að brjóta kjarasamninga. Hægt er að senda ábendingar á baran@baran.is og mega þær vera nafnlausar ef fólk kýs það frekar.