Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fréttabréf Bárunnar

Af hverju er greitt í stéttarfélag?

Stéttarfélög gera kjarasamninga sem tryggja lágmarkskjör fyrir þau störf sem félagsmenn þeirra vinna og veita upplýsingar um kaup og kjör og passa að kjarasamningar séu virtir. Stéttarfélög veita upplýsingar um skyldur og réttindi, túlka kjara og ráðningarsamninga. Einnig aðstoða stéttarfélögin við innheimtu launa og aðstoða ef upp kemur ágreiningur á vinnustað. Hægt er að fá lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust hjá stéttarfélögum.

Stéttarfélög greiða sjúkradagpeninga í langtíma veikindum og styrkja félagsmenn á marga vegu, má þar nefna styrki vegna gleraugnakaupa, tannlæknaheimsókna, líkamsræktar og skólagjalda.

Stéttarfélög bjóða einnig upp á orlofshús sem félagsmenn geta leigt á hóflegu verði.

 

Það gætir ákveðins misskilnings á almennum vinnumarkaði um það hvort hægt sé að sleppa greiðslu iðgjalda í stéttarfélag eða hvort velja megi stéttarfélag eftir geðþótta þvert á félagssvæði og jafnvel kjarasamnninga.

Samkvæmt lögum nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags sem gert hefur kjarasamning um störf hans. Atvinnurekanda er einnig skv. lögunum skylt að skila til stéttarfélagsins gjöldum í fræðslusjóð, sjúkrasjóð og orlofssjóð.

Má velja í hvaða stéttarfélag er greitt?

Það sem ræður stéttarfélagsaðild er starfsgreinin sem starfsmaður starfar í og það félagssvæði sem hann starfar á. Stéttarfélög gera kjarasamninga um ákveðnar starfsgreinar. Greitt er af starfsmanni  til þess félags sem félagssvæðið tilheyrir og gerir kjarasamning um það starf sem starfsmaður sinnir.

Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?

Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna til hvaða félags á að  greiða iðgjöldin. Ef tvo félög eða fleiri hafa gert kjarasamning um sömu störf á sama félagssvæði skal starfsmaðurinn velja félag við gerð ráðningarsamning.

 

 

 

 

Réttindi félagsmanna

Báran, stéttarfélag leggur áherslu á að allir sínir félagsmenn séu meðvitaðir um sín réttindi og kjör og hvetjum við alla að fylgjast vel með sínum réttindum og fara vel yfir launaseðla og passa að ráðningarsamningur sé gerður.

Passa að verið sé að borga eftir kjarasamningum og að vinnuveitandi sé að greiða öll gjöld félagsmanna. Ef grunur leikur á að það sé ekki allt eins og það á að vera þá hvetjum við félagsmenn að leita til okkar.

Hægt að hringja í síma 480-5000 eða senda okkur tölvupóst á baran@baran.is eða koma á skrifstofu okkar á Austurvegi 56. Einnig er hægt að leita til trúnaðarmanna ef að þeir eru til staðar.

Lögfræðiþjónusta Bárunnar, stéttarfélags

Lögmannsstofan LMG sinnir lögfræðilegum verkefnum fyrir Báruna stéttarfélag og félagsmenn þess. Einu sinni í mánuði gefst félagsmönnum kostur á að ræða við lögmann á skrifstofu félagsins, sér að kostnaðarlausu. Hafi félagsmaður áhuga á að nýta sér þjónustuna er honum bent á að panta tíma í síma 480-5000.

Telji félagsmenn sig þurfa á þjónustu lögmanns að halda geta þeir einnig snúið sér beint til stofunnar en allar nánari upplýsingar má finna á lmg.is og í síma 511-1190. Félagsmönnum Bárunnar er veittur afsláttur af lögfræðikostnaði og takmarkast þjónustan ekki við mál á sviði vinnuréttar eða verkalýðsmála.

Gæludýr í orlofshús Bárunnar

Á stjórnarfundi Bárunnar voru tekin fyrir erindi félagsmanna varðandi gæludýr í orlofshúsunum.
Ákveðið var að leyfa gæludýr í einu af orlifshúsum okkar á Flúðum, Þverlág 2. frá og með 26.09.2022.
Þetta verður til reynslu í eitt ár.
Við biðjum gesti um að virða reglur varðandi dýrahald og umgengni húss. Fólki með ofnæmi fyrir dýrum er ráðlagt að fara ekki í þennan bústað.