Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fréttabréf Bárunnar, Febrúar 2024

Kæru félagar

Vinnutímastytting, hver verður niðurstaða kjarasamninga ?

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði runnu út um síðustu mánaðamót eða þann 31.01 2024. Viðræður hafa verið í gangi síðan í desember og gengið hægt. Svokölluð „Breiðfylking“ sem samanstendur af Starfsgreinasambandi Íslands, Eflingu, FIT og VR hefur leitt viðræður við SA og hafa félögin ekki komist enn þá að samningaborðinu.  Nú virðist staðan vera sú (þegar þessi grein er rituð) að meginkrafa okkar félagsmanna samkvæmt kjarakönnun Vörðu um styttingu vinnuvikunnar hefur ekki fengið brautargengi í kjaraviðræðum. Félagsmenn voru hófsamir eins og svo oft áður varðandi launahækkanir en fóru á móti fram með kröfur um vinnutímastyttingu, lengja orlof og auka veikindarétt vegna barna.

SA (Samtök atvinnulífsins) hafa talið þetta of kostnaðarsamt þó að vinnutímastytting þeirra sem þegar eru komnir með vinnutímastyttingu hefur ekki verið kostnaðarmetinn inn í kjarasamninga til þessa. Það sem liggur á borðinu núna varðandi launhækkanir sem eru mjög hóflegar og eiga að vera framlag launafólks til lækkunar verðbólgu er rýrt ef ekki kemur til vinnutímastyttingar hjá okkar fólki eins og öðrum sem þegar hafa fengið styttingu.

Með félagskveðju

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður.

Greitt hefur verið úr Félagsmannasjóði fyrir árið 2023

Í kjarasamningi aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2019 var samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Sveitarfélögin greiða mánaðarlega 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í þennan sjóð.

Ef þú hefur ekki fengið greiðslu úr Félagsmannasjóði og þú vannst árið 2023 hjá sveitarfélagi máttu hafa samband við Báruna með því að senda tölvupóst á baran@baran.is

Við hvetjum þig til að skrá sig inn á Mínar síður félagsins https://minarsidur.baran.is/, með rafrænum skilríkjum, þar getur þú kannað hvort við séum með réttar upplýsingar um þig og lagfært ef þörf krefur. Ef þú kemst ekki inn á síðuna eða hefur einhverjar spurningar í sambandi við félagsmannasjóðinn þá máttu endilega senda tölvupóst á baran@baran.is

Starfsmannabreytingar

Starfsmannabreytingar hafa orðið á skrifstofu Bárunnar.

Þórarinn Smári Thorlacius Vinnustaðareftirltsfulltrúi hefur látið af störfum og þökkum við honum fyrir góð störf í þágu félagsmanna.

Guðjóna Björk Sigurðardóttir Kjaramálafulltrúi heldur einnig á nýjar slóðir, félagið óskar henni velfarnaðar í nýju starfi og þakkar samstarfið.

Gunnar Karl Ólafsson hefur tekið aftur til starfa og bjóðum við hann velkominn aftur.

Vinnumansal er veruleiki á Íslandi

Nýlega kom út stutt fræðslumynd á fimm tungumálum um helstu einkenni vinnumansals. Verkefnið var unnið á síðasta ári, í ljósi þess að slík mál gera í auknum mæli vart við sig í íslensku samfélagi og ástæða þótti til þess að gera betur grein fyrir þeim. Myndin er um þriggja mínútna löng hreyfimynd og er unnin á Íslandi, en myndskreytirinn Elías Rúni teiknaði myndirnar við handrit sem unnið var af samstarfshópi þeirra sem komu að verkinu.

Hér má nálgast fræðslumyndina, talsetta og textaða á 5 tungumálum (íslensku, ensku, pólsku, spænsku og úkraínsku).

Myndbandið er samstarfsverkefni Vörðu-Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, Félagsmálaskóla alþýðu, Jafnréttisstofu, Kvennaathvarfs, Vinnueftirlitsins, Rauða Krossins á Íslandi og Neyðarlínu – 112. Verkefnið hlaut stuðning frá Dómsmálaráðuneyti og Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.