Fréttabréf Bárunnar, stéttarfélags
Báran bætir við orlofskosti sína
Báran hefur fest kaup á glænýrri íbúð í Borgartúni 24 í Reykjavík. Íbúðin er á frábærum stað og eru þrjú svefnherbergi í íbúðinni. Íbúðinni fylgir einnig bílastæði í bílakjallara. Stefnt er að fá íbúðina afhenta í mars 2024 og mun hún svo fara í útleigu fljótlega eftir það.
Jólafundur trúnaðarmanna
Árlegi jólafundur trúnaðarmanna var haldinn á skrifstofum Bárunnar miðvikudaginn 6. desember. Dagskráin var skemmtileg og var farið yfir ýmis mikilvæg mál.
Bjarni Þór Sigurðsson frá ASÍ fór yfir húsnæðismál, bæði hvað varðar Bjarg og Blæ og hvað er framundan í húsnæðismálum hreyfingunnar, Næst kom Kolbeinn Marteinsson og fór yfir samskipti og samfélagsmiðla og hvernig þróunin hefur verið í samskiptum og hvernig nýjar kynslóðir nýta sér samfélagsmiðla í sínum samskiptum. Magnús Ingi Ingvarsson frá Þínu Öryggi hélt erindi um öryggi á vinnustyað og fór yfir hvernig skal bæta ferla varðandi öryggi starfsmanna í þjónustu- og umönnunarstörfum. Halldóra formaður fór yfir stöðuna á kjarasamningum og hvaða áherlsur hreyfingin er að vinna eftir samkvæmt niðurstöðum kjarakönnunar sem Varða hélt fyrir félagsfólk stéttarfélaga, Sigurlaug sem heldur utan um trúnðarmannafræðslu hjá ASÍ endaði svo á yfirferð um áherslur trúnaðarmanna og stöðuna á því starfi.
Dagurinn endaði svo á dýrindis jólamat og voru trúnaðarmenn leystir út með jólagjöf.
Við þökkum kærlega fyrir skemmtilegan dag.
Bætt þjónusta við félagsmenn
Nú geta félagsmenn pantað viðtal í gegnum Teams. Það hafa ekki allir tök á því að koma upp á skrifstofu til okkar og því hefur Báran tekið upp á því að bjóða félagsmönnum sínum að panta fund/viðtal í gegnum Teams. Hægt er að panta með að senda okkur póst á baran@baran.is eða hringja á skrifstofu okkar 480-5000
Hvenær á að semja?
Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að kjarasamningar renna út þann 31. jan 2024. Kjaraviðræður fara hægt af stað og er lítið að gerast. Sveitarfélögin greiða ekki fyrir kjaraviðræðum með tilkynningum um gjaldskrárhækkanir. Báran, gerði kjarakönnun ásamt 7 öðrum stéttarfélögum. Niðurstöðurnar voru skýrar og krafan um 30 daga orlof og stytting vinnuvikunnar var mjög skýr. Gagnvart stjórnvöldum voru það heilbrigðis- og húsnæðismál. Starfsgreinasamband Íslands (18 stéttarfélög) fer með samningsumboðið og er formenn þessara 18 félaga sem skipa samninganefnd SGS. Það er nauðsynlegt fyrir stjórn og trúnaðarmenn sem skipa samninganefnd félagsins að finna taktinn hjá félagsmönnum. Góð þátttaka var í könnunni og vilja koma á framfæri þakklæti til félagsmanna sem gáfu sér tíma til þess að taka þátt. Niðurstöður könnunarinnar er í heild sinni inn á heimasíðu félagsins
Smelltu hér til að skoða niðurstöður könnunarinnar
Hver eftirtalinna atriða telur þú mikilvægast að leggja áherslu á á samningstímanum varðandi réttindi?
Hver eftirtalinna atriða telur þú mikilvægast að verkalýðshreyfingin beiti sér fyrir varðandi húsnæðismál?
Jólakveðja formanns
Nú fer að líð að lokum ársins 2023. Það er alltaf eitthvað sem einkennir hvert ár. Í ár er það stríð og náttúrhamfarir í Grindavík sem eru efsti í huga og hluttekning til félaga okkar í Grindavík. Í verkalýðshreyfingunni eru áskoranir og baráttan er lifandi og heldur stöðugt áfram.
Trúnaðarmenn eru hryggstykki hvers félags. Starfsemi félaganna byggir á félögunum, trúnaðarmönnum og stjórnum. Félagið er í átaki að fjölga trúnaðarmönnum Félögin þurfa að halda úti öflugu trúnaðarmannakerfi til þess að ná utan um taktinn á vinnustöðunum, hvað má betur fara og hvað getum við gert. Við viljum leita til ykkar að hvetja til kosninga á trúnaðarmönnum á vinnustöðum. Félagið verður ekki sterkara en félagarnir sjálfir.
Fyrir hönd félagsins óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla, farsældar og friðar á næsta ári. Þökkum samstarfið á liðnu ári.
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.