Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fundur í samninganefnd

Fundur samninganefndar Bárunnar, stéttafélags var haldinn 14. janúar sl. samninganefnd er skipuð stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins.  Á fundinum var farið yfir stöðuna í samningamálum nú þegar komið er að endurskoðun forsenduákæða. Þungt var í fólki og ljóst að enginn er ánægður með hvernig mál standa nú um mundir. Miklar umræður sköpuðust um stöðuna og töluverður hiti í fólki. Niðurstaða fundarins var að samningum skuli ekki sagt upp en að samningstími skuli styttur. Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Báran, stéttarfélag á Selfossi tekur undir með Samtökum Atvinnulífsins.

Fundur samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags Selfossi tekur undir með Samtökum atvinnulífsins að nauðsynlegt sé að “samningsaðilar hefji nú þegar vinnu vegna næstu kjarasamninga sem þarf að felast í mótun á sameiginlegri sýn á getu atvinnulífsins og samfélagsins til launahækkana og aukins kaupmáttar á næstu árum“.

Launafólkið í landinu hefur sýnt mikið æðruleysi í öllum þeim ólgusjó verðbólgu, verðhækkana og skattahækkana sem dunið hafa yfir síðustu misseri án nokkurs samráðs við launafólk.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að aftur og aftur hefur orðið forsendubrestur og samningsmarkmið hafa ekki náðst telur félagið að ekki verði lengur við unað.

Samninganefnd Bárunnar, stéttarfélags skorar á Samtök atvinnulífsins að koma á móts við launamenn þessa lands og stytta samningstímann í gildandi kjarasamningum frá 5. maí 2011 – 30. september 2013.