Fundur með Gylfa Arnbjörnssyni
Stjórnir Bárunnar, VMS og stjórnarmenn frá Félagi mjólkurfræðinga funduðu með Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ í sal stéttarfélaganna á Selfossi í gærkveldi.
Fyrir fundinn hittist samninganefnd Bárunnar og fór og samþykkti yfir kröfugerðir sem lagðar verða fram fyrir hönd félaganna og stjórn VMS hélt stjórnarfund.
Gylfi hefur verið á fundarferð um landið og óskaði eftir þessum fundi til að fá að heyra hvaða áherslur félögin hér leggðu á í komandi kjarasamningum. Gylfi byrjaði á að fara vítt og breytt yfir stöðuna og hvernig landið lægi að hans mati. Hann fór yfir þá samninga sem gerðir hafa verið eftir að ASÍ skrifaði undir samningana og sagði augljóst að ríkisvaldið hefði breytt um stefnu gagnvart opinberu félögunum. Sú stefnubreyting væri ekki í boði fyrir almennu félögin. Hann sagði það skoðun sína að alger trúnaðarbrestur hefði orðið milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar og sagðist velta því fyrir sér hvort frekari viðræður myndu skila einhverjum árangri. Framkomið fjárlagafrumvarp benti til þess að ríkisstjórnin ætlaði að halda áfram að velta öllum kostnaði yfir á launafólk og hlífa þeim betur stæðu og nefndi hækkun matarskatts, skerðingu á jöfnunarframlagi til lífeyrissjóðanna og fleiri aðgerðir í ríkisfjármálum sem munu koma lægst launaða fólkinu verst. Hann mótmælti orðum fjármálaráðherra um að þessar breytingar feldu í sér kaupmáttaraukningu fyrir heimilin og rökstuddi gagnrýni sína.
Töluverð gagnrýni kom frá stjórnarmönnum félaganna á hvernig staðið var að gerð síðustu kjarasamninga og hvöttu til þess að ekki yrðu gerð sömu mistökin aftur. Einnig vöktu þeir athygli Gylfa á því að hjá félögunum á Suðurlandi væru sumir lægst launuðu félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar. Sögðu þeir ljóst að það yrði að berjast sérstaklega fyrir hag þeirra og sögðu það koma skýrt fram í kröfugerðum félaganna.
Gylfi varpaði fram þeirri spurningu hvort stjórnarmenn hér treystu sér til að segja til um hvort félagsmenn væru tilbúnir í aðgerðir yrði þróunin á þá leið. Sögðu stjórnarmenn það óljóst á þessu stigi en kölluðu eftir að forysta verkalýðshreyfingarinnar risi upp og veitti þá forystu sem fólk kallaði eftir. Þá væri hugsanlega hægt að svara spurningunni.
Eftir þennan fund með Gylfa þá er ljóst að það stefnir í hörð átök í vetur og greinilegt að þolinmæði verkalýðshreyfingarinnar er orðin verulega teygð. Ekki er ólíklegt að við munum þurfa að taka erfiðar ákvarðanir áður en þessi vetur er liðinn.
Í því sambandi er rétt að minna á félagsfund Bárunnar næst komandi mánudag og hvetjum við alla sem vettlingi geta valdið að mæta.