Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fyrirmyndarþjóðfélagið Ísland

Stundum er sagt að gott sé að trúa á sjálfan sig, en sannfærast samt sem áður ekki of fljótt. Þetta ágæta heilræði rifjaðist upp fyrir mér eftir að  forysta Samtaka atvinnulífsins brást við kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands, sem lögð var fram í síðustu viku.
Meginkröfurnar eru 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina, launatöflur endurskoðaðar, starfsreynsla og menntun verði metin til hærri launa, desember- og orlofsuppbætur hækki, vaktaálag verði endurskoðað, lágmarksbónus í fiskvinnslu verði tryggður og að starfsheiti verði skilgreind á ný.

Skemmst er frá því að segja að Samtök atvinnulífsins svöruðu strax fullum hálsi og sögðu að enginn samningsgrundvöllur væri til viðræðna um endurnýjun kjarasamninga og bentu á að launabreytingar í nágrannalöndum séu á bilinu 2% til 4% á ári.

Eru sunnlenskir atvinnurekendur sammála ?

Óneitanlega velti ég því fyrir mér hvort atvinnurekendur á Suðurlandi taki undir þessi harkalegu viðbrögð talsmanna Samtaka atvinnulífsins.  Eftir að hafa rætt við forsvarsmenn fjölmargra sunnlenskra fyrirtækja, efast ég stórlega um að þeir taki undir með forystu sinna eigin samtaka.

Samanburður við hin Norðurlöndin

Mönnum hefur verið tíðrætt um hina norrænu leið í kjarasamningum. Miðað við nýja úttekt á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum kemur í ljós að dagvinnulaun íslensks verkafólks eru allt að 30% lægri en hjá frændum vorum. Þessar tölur segja í raun og veru allt sem segja þarf í þessum efnum. Forysta atvinnurekenda telur hins vegar að þjóðfélagið fari á hliðina verði gengið að kröfum Starfsgreinasambandsins og hafnar alfarið viðræðum. Ég efast um að þorri þjóðarinnar sé sammála vinnuveitendum.

Vinnuveitendur sannfærist fljótlega

Á hátíðarstundum er gjarnan talað um að Ísland sé í hópi auðugustu ríkja heims. Í slíku fyrirmyndarþjóðfélagi hlýtur almenningur að lifa af dagvinnulaununum og þurfi ekki að treysta á aukavinnu og akkorð til að daglegrar framfærslu. Þannig er staðan engu að síður í dag hér á landi.

Mikil samstaða ríkir innan Starfsgreinasambandsins um kröfugerðina. Helstu talsmenn vinnuveitenda eru á allt öðru máli, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að verkafólk á Íslandi býr við lakari launakjör en á hinum Norðurlöndunum.
Augljóst er að enginn lifir á lágmarkslaunum sem eru í dag 201.317 krónur og eftir fjóra mánuði í starfi  214.000 krónur.

Það er ágæt regla að sannfærast ekki of fljótt. Ekki verður öðru trúað en að vinnuveitendur sannfærist fljótlega um nauðsyn þess að bæta launakjör hinna lægst launuðustu í fyrirmyndarþjóðfélaginu Íslandi.

Því fyrr því betra !

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags.