Góð þátttaka í 1. maí göngu á Selfossi
1. maí var haldinn hátíðlegur á Selfossi í dag eins og hefð er fyrir. Góð þátttaka var enda gott veður þó heldur væri svalt. Gengið var fylktu liði undir forystu lögreglunnar og félaga úr Hestamannafélaginu Sleipni og Lúðrasveit Selfoss blés göngumönnum baráttuanda í brjóst. Gengið var frá Tryggvatorgi í miðbæ Selfoss og endaði gangan við hús stéttarfélaganna.
Þar fór fram hátíðardagskrá þar sem fléttað var saman skemmtiatriðum og tónlist í bland við hefðbundin ræðuhöld. Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags stýrði fundinum. Aðalræðumaður dagsins var Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Guðmundur Snæbjörnsson, nemandi í Menntaskólanum að Laugarvatni flutti ræðu fyrir hönd yngri kynslóðarinnar.
Að ræðuhöldum loknum tók við dagskrá þar sem meðal annars Lalli töframaður og Ingó veðurguð skemmtu gestum. Fornbílaeigendur voru mættir með tryllitækin sín sem vöktu mikla athygli.