Við vinnum fyrir þig

Translate to

Góður fundur með þingmönnum

Fundur stéttarfélaganna á Suðurlandi með þingmönnum Suðurkjördæmis var haldinn að Hótel Selfoss í gærkveldi. Á fundinn mættu fjórir af tíu þingmönnum og geta það ekki talist góðar heimtur. Stéttarfélögin vilja þakka Björgvin G. Sigurðssyni, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigurði Inga Jóhannssyni og Unni Brá Konráðsdóttur fyrir komuna.  Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir og Atli Gíslason tilkynntu veikindi og Árni Johnsen  var upptekinn annarstaðar. Ekki er vitað hvað varð um aðra þingmenn sem boðið var til fundarins.

Fundurinn var líflegur og eftir að þingmenn höfðu komið upp og svarað spurningum stéttarfélaganna voru leyfðar spurningar úr sal. Áhyggjur Sunnlendinga komu greinilega fram í spurningum fundarmanna til þingmanna og voru spurningar um atvinnumál og slæma stöðu heilsugæslu og lögreglumála á svæðinu fyrirferðamiklar.

Greinilega kom fram í máli þingmanna að töluverð óánægja ríkir í þeirra röðum með framgang rammaáætlun um orkunýtingu  enda er hún helsta von Sunnlendinga í atvinnusköpun. Voru þingmenn sammála að áríðandi væri að taka hana út úr því pólitíska þrasi sem hún situr föst í, koma henni aftur í faglega umfjöllun og afgreiða hana sem fyrst. Töluðu þingmenn um að deilan væri hugmyndafræðileg milli þeirra sjónarmiða að nýta landsins gæði og þeirra sem vildu stíga varlega til jarðar í þeim efnum. 

Halldóra Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags fór í pontu og las þingmönnum pistilinn. Taldi hún ófært að þingheimur teldi sér sæmandi að deila um hugmyndafræði meðan heimilin í landinu brynnu upp og atvinnuleysi fer vaxandi. Hvatti hún þingmenn til að sameinast í þeirri aðkallandi vinnu að koma heimilum og einstaklingum til bjargar og leggja hugmyndafræðilegan ágreining til hliðar. Fékk hún miklar undirtektir frá salnum og greinilegt að margir fundarmanna eru sama sinnis.

Fundinum lauk klukkan rúmlega  tíu og vilja félögin þakka fundarstjóra, Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands fyrir röggsama fundarstjórn og Pamelu Morrison frá Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi fyrir frábæra tímastjórnun.