Við vinnum fyrir þig

Translate to

Græðgisvæðingin tröllríður öllu

Kristín Á. Guðmundsdóttir var annar ræðumaður dagsins á baráttufundi  sem haldinn var á Hótel Selfossi fyrr í dag. Fram kom hjá henni hörð gagnrýni á einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu.  Einkarekin  heilbrigðisþjónusta er mótuð af  einstaklingshyggju sem gengur eingöngu út á að græða veikindum fólks.

Sjá ræðu Kristínar hér fyrir neðan.

 

Ágætu félagar! Gleðilega hátíð!
Við hittumst í dag vítt og breytt um landið til þess að halda hátíðlegan dag vekalýðsins. Hátíð sem haldin hefur verið hér á landi í 95 ár. Á þessum degi hafa launamenn safnast saman um allan heim í hátt í 130 ár.  Hugsjón verkalýðshreyfingarinnar er og hefur verið! ​Jöfnuður.  Jöfnuður í formi réttinda  Jöfnuður í formi réttlætis Jöfnuður í formi bræðralags. Jafnaðarhugsjónin hefur verið eitt af  aðalsmerkjum launþegahreyfingarinnar um heim allan. Í langan tíma hefur verið sótt að grundavallar hugsjónum hennar og  því haldið fram að ekkert gagn sé af því að vera í stéttarfélögum og að einstaklingshyggjan sé það sem þurfi að rækta, upphefja. Til áherslu er bent á að hver og einn eigi að hugsa um eiginn hag en ekki heildina.  H​ugsaðu um ÞIG,  njóttu þess, hve einstakur og frábær þú ert.  Svona hljómar áróðurinn og margir bíta á agnið.

Það lánast ekki öllum í lífsbaráttunni að hafa jafn mikið á milli handanna og það er ekki endilega vegna þess að einstaklingar séu ekki jafn hæfir. Það eru svo mörg atriði sem geta gert gæfumuninn. Svo sem jafnt aðgengi til menntunar, atvinnuframboð eftir búsetu, slys og aðrir þættir sem ekki eru fyrirséðir.
Þess vegna er jafnaðarhugsjón stéttarfélaganna öllum svo nauðsynleg, einstaklingnum og þjóðinni allri.

Í dag hefur ungu fólki ekki verið gert kleift að koma sér þaki yfir höfuðið hvorki að leigja né kaupa.  Verkalýðshreyfingin hefur tekið höndum saman um þá stefnu að byggja í samvinnu við sveitarfélögin leiguhúsnæði svo að ungu fólki verði gert mögulegt að leigja á viðráðanlegu verði. Í þessum tilgangi var Bjarg íbúðafélag stofnað af BSRB og Alþýðusambandi Íslands.  Félagið verður rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Félagið hefur þegar samið við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ um byggingu 1.150 leiguíbúða, auk þess sem viðræður eru í gangi við önnur sveitarfélög um uppbyggingu, samtals um 80.000 fermetrar og er stefnt á að afhenda fyrsta húsið árið 2018.  Mörg aðildarfélög BSRB og ASÍ hafa lagt fram stofnfé til þessa verkefnis.

Til þess að ná árangri í jöfnuði þarf að draga úr einstaklingshyggju hugsunarhætti og rækta samkennd, samhug og samtryggingu.  Rekstur heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera er í formi samkenndar og samtryggingar. Hinsvegar er einkarekin  heilbrigðisþjónusta mótuð af  einstaklingshyggju sem gengur eingöngu út á að græða veikindum fólks, til þess að geta greitt sér arð af rekstrinum. Við vitum að heilbrigðisþjónustan er og verður alltaf kostuð af skattpeningum okkar hvort sem um er að ræða einkarekna eða samfélagsrekna þjónustu, þjóðfélagið kemst ekki undan því.  Það vita það allir sem vilja vita, að grafið hefur verið undan heilbrigðisþjónustunni í þeirri mynd sem við þekktum hana á undanförnum árum, svo nú er hún ekki svipur hjá sjón.  Þessi pólitík gengur út á að búa svo um hnútana að hægt verði að reka áróður fyrir því að byggja upp einkarekna heilbrigðisþjónustu. Þá er engin munur á hvort verið er að ræða sjúkrahúsrekstur eða hjúkrunarheimili fyrir aldraða.  Sama á við um alla innviði velferðarþjónustunnar. Græðgisvæðingin tröllríður öllum þessum þáttum í skjóli og undir undir stjórn þeirra pólitísku afla sem stýrt hafa landinu nánast samfleitt á undanförnum áratugum, að undanskildum þeim tíma sem flokkar undir formerkjum jafnaðarhugsjónarinnar voru fengnir til að þrífa flórana á eftirhrunsárunum. Eftir gríðarlega erfitt starf máttu þeir  hypja sig að mati þeirra sem ákafast ákalla einstaklingshyggjuna. Nú er allt á sömu leið og fyrir var og græðgisvæðingin og einkavinavæðingin tekið við völdum að nýju og bónusar eru greiddir út í milljörðum.

Töluvert hefur verið rætt og ritað um virkni eldra fólks  á vinnumarkaði undanfarin ár. Sú umræða hefur þó haldist í hendur við stöðuna á vinnumarkaði og farið eftir atvinnuleysistölum frá Vinnumálastofnun.  Bent hefur verið á fjölgun aldraðra í þjóðfélaginu og að á komandi árum munu sífellt færra og færra ungt fólk verða til staðar til þess að vinna fyrir velferðarkerfinu og þeirri þjónustu sem aldraðir hafa þörf fyrir. Því hefur verið unnið að  því að hækka lífeyristöku aldur upp í 70 ár og hvíslað hefur verið um aldurinn  75 ára.
Rétt er að skjóta því hér inn að Íslendingar eru mun lengur á vinnumarkaði en nágrannar okkar á hinum norðurlöndunum. Eftir því hefur verið tekið og margir undrað sig á vinnusemi Íslendinga.
Á fundi félagsmálaráðherra  Þorsteins Víglundssonar og forsvarsmanna Félags eldri borgara í janúar sl. kom fram einhugur um að draga þurfi betur fram og gera sýnilegra hve virk samfélagsþátttaka aldraðra er mikils virði og framlag þeirra til samfélagsins mikið.
Þetta er talað á sama tíma og stjórnvöld hafa breytt almannatryggingakerfinu á þann hátt að frítekjumarkið LÆKKAR greiðslur á ellilífeyri um 45%.
Ég hef haldið því fram að ekki bara við breytingar á hækkun lífeyristökualdurs, heldur kerfisbreytingum yfir höfuð þurfi að byrja á réttum enda.  Skoða þarf það umhverfi sem við búum við og taka ákvörðun um breytingar þar á, áður en sjálfu kerfinu er breytt.

Þar má td. nefna að ef eldri borgarar eiga að geta unnið lengur þá þarf það að skila einhverjum ávinningi fyrir þá, ekki bara fyrir atvinnurekendur og ríkissjóð. Það á að vera hægt að stilla kerfið þannig að allir hafi hag af breytingunum, en vil ítreka það að þá þarf að byrja á réttum enda.
Eitt af því sem taka þarf tillit til eru stéttir sem starfsins vegna eiga erfitt með að starfa áfram, þegar aldurinn færist yfir. Þar má nefna sem dæmi fagreinar eins og sjúkraliða, sem meira og minna hafa verið pískaðir áfram, allan sinn starfstíma. Fjöldi þeirra eru orðnir öryrkjar uppúr 60 ára aldri. Þetta er nokkuð sem stjórnvöld vita um en hafa ekki haft þann manndóm sem til þarf til að gera nokkuð í. Sjáið þið fyrir ykkur 65 til 70 ára sjúkraliða veikbyggða konu og að þrotum komna eftir gengdarlausa undirmönnun undanfarinna ára standa við rúm sjúklings beygja sig og teygja með allt uppí 200 kílóa sjúkling í fanginu. Eða að vera árvökul með allt sem viðkomandi einstaklingur þarfnast í hjúkruninni?
Það eru ekki einungis sjúkraliðar sem eru í þessari stöðu, þar hafa karlastéttir eins og lögreglan, slökkviliðsmenn og tollverðir einnig bent á. Enda hver vill að við séum með hátt í 70 ára lögreglumann til þess að eltast  við glæpamenn, eða sinna öðrum öryggismálum, eða 70 ára slökkviliðsmann í öllum  herklæðum við störf sín í eldsvoða. Sama á við um tollverði sem þurfa að vera í stakk búnir að sinna þeim málum sem upp kunna að koma hverju sinni.
Eitt af því sem sjúkraliðarnir hafa lagt áherslu á, er að koma þarf á heilsueflingu svo að þeir verði betur í stakk búnir að sinna störfum sínum og halda heilsu lengur en raun ber vitni. Þessu hafa vinnuveitendur verið sammála, en ekkert gert í, þrátt fyrir marg ítrekaðar kröfur stéttarfélagsins í þá veru.
Ég hef dregið fram dökku myndina á því að hækka lífeyristökualdur en vil taka það skýrt fram að það væri öllum til bóta að samfélagið vinni að því að eldra starfsfólk geti verið lengur á vinnumarkaði. Þar er um mikinn mannauð að ræða, sem þjóðfélagið á að nýta sér betur en nú er gert.
Eitt af því sem einnig þarf að draga hér fram er það viðmót sem starfshæfingarráðgjafar hjá Virk hafa bent á. Þegar þeir hafa endurhæft fullorðna starfsmenn er það því miður oftast raunin að við þeim starfsmönnum sé ekki tekið við með ánægju og gleði á vinnustað. Mikið vantar uppá að kerfið virki eins og til er ætlast í þessum málum.

Nú er mikið rætt um að koma á starfsgetumati. Reyna þannig að koma í veg fyrir þá skelfilegu fjölgun sem er á öryrkjum. En þarf ekki að byrja á réttum enda og laga starfsumhverfið fyrst og fara í breytingar síðar. Byrja á réttum enda eins og ég hef vikið að hér að framan?
Eða getur útslitinn einstaklingur sem búið er að meta með 50% starfshæfni eða minna, fengið vinnu? Ef ekki að hverju á hann þá að hverfa? Á hverju á hann að lifa? 50% atvinnuleysisbótum í einhvern tíma? Eða á hann að fara á félagslega kerfi sveitarfélaganna eftir allt stritið um ævina?
Þessum spurningum verður fyrst að svara áður en breytingar eru gerðar á því kerfi sem nú er.

Eins og fram hefur komið í máli mínu er margt sem verkalýðshreyfingin er að berjast við, en því miður hlusta fáir af þeim sem völdin hafa.

Það er von mín og trú að einn daginn komi að því að vinnandi stéttir hvar sem er á landinu taki höndum kröftuglega saman og knýi fram þær breytingar sem til þarf svo okkur öllum geti liðið vel á Íslandi, Ekki bara auðvaldinu.
Takk fyrir áheyrnina.