Hækkun á matarskatti strax komin út í verðlagið
Eins og verðlagseftirlit ASÍ greindi frá fyrir helgi benda fyrstu vísbendingar um áhrif breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum á matvöruverð til þess að hækkun á neðra þrepi virðisaukaskattsins hafi nú þegar skilað sér út í verðlag til neytenda en í flestum matvöruverslunum sjást takmörkuð áhrif af afnámi vörugjalda. Í heildina er það mat verðlagseftirlitsins að breytingarnar gefi tilefni til hækkunar á verði matarkörfu meðal heimilis um u.þ.b. 1,5% en þegar innihald matarkörfunnar er skoðaða nánar eru áhrifin á einstaka vöruflokka mjög misjöfn.
Um áramót var virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaður úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld voru feld niður (s.k. sykurskattur) af sykri og sætum mat- og drykkjarvörum. Breytingin gefur því að hámarki tilefni til 3,7% hækkunar á ósætum matvörum en áhrifin á verð matvara sem innhalda sykur eða sætuefni ráðast af því hversu mikinn sykur varan inniheldur. Almennt má því segja að þeim mun sætari sem varan er þeim mun þyngra vegur afnám vörugjaldsins í verðinu og þeim mun meira ætti varan að lækka í verði.
Sá vöruflokkur í matvörukörfunni sem afnám sykurskattsins hefur mest áhrif á er eins og gefur að skilja sykur, súkkulaði og sætind. Í heildina má áætla að samspil breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til u.þ.b. 10% lækkunar á þeim vöruflokki. Þegar skoðaðar eru breytingar á verði þessa vöruflokks milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í lok nóvember sl. og í byrjun janúar má sjá að í flestum verslunum hefur verð á vörum í þessum vöruflokk hins vegar hækkað, mest um u.þ.b. 3% í Tíu ellefu, Samkaup-Úrval, Kjarval og Kaskó. Á þessu eru undantekningar þar sem sykur og sætindi hafa lækkað í verði milli mælinga en mest nemur lækkunin 5% í Bónus og ríflega 4% í Hagkaupum.
Áhrif afnáms vörugjalda eru einnig talsverð í drykkjarvöruflokknum en ýmsar sætar drykkjarvörur báru vörugjöld. Áætla má að samspil breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til a.m.k. 2,5% lækkunar á vöruflokknum í heild. Hjá flestum verslunum hafa drykkjarvörur þó hækkað frá því lok nóvember, mest í Víði um 5,4%, Samkaupum-Úrval um 4,5% og í Iceland, Kaupfélagi Vestur Húnvetninga, Kaupfélagi Skagfirðinga og Nettó um 3-4%. Í nokkrum verslunum hefur vöruflokkurinn hins vegar lækkað, mest í Kjarval um 7,8%, í Krónunni um 5,4% og Bónus um 4,3%.
Í vöruflokknum brauð og kornvörur er einnig að finna ýmsar sætar matvörur ss. sætabrauð, kex, sætt morgunkorn o.fl. sem báru vörugjöld. Áætla má að breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi samanlagt tilefni til u.þ.b. 2% hækkunar á þessum vöruflokki en samkvæmt mælingu verðlagseftirlitsins hafa brauð og kornvörur hækkað umfram það í öllum verslunum, mest hjá Kaupfélagi Skagfirðinga um 5,8% og minnst í Hagkaupum um 2,5%.
Margar mjólkurvörur eru sætar og báru því vörugjöld. Samspil umræddra breytinga gefa að mati verðlagseftirlitsins tilefni til u.þ.b. 2,5% hækkunar á vöruflokknum mjólkurvörur, ostar og egg. Í flestum verslunum er hækkun vöruflokksins talsvert umfram það, mest í Víði 8,7% og 4-5% í Kaupfélagi Skagfirðinga, Iceland, Kaskó, Nettó og Samkaupum-Strax. Í Bónus og Krónunni hækkuðu mjólkurvörur, ostar og egg um 1,7% en hjá Kjarval lækkuðu þessar vörur hins vegar um 5,3%.
Af þessum niðurstöðum er ljóst að sú skattalækkun sem fólst í lækkun vörugjalda á matvörum á enn að lang mestu leyti eftir að skila sér til neytenda. Verðlagseftirlitið mun á næstu vikum og mánuðum áfram fylgjast náið með verðþróun á matvörumarkaði og fylgja því eftir að neytendur fái í sinn hlut það sem þeim ber.
Samanburðurinn nær til verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum í lok nóvember 2014 og í annarri viku janúarmánaðar 2015.
Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði matvörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Matvörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar eru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af matarkörfu meðalheimilis.
Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni , Samkaupum-Úrvali, Víði, 10-11 og Samkaupum-Strax, Kjarval, Kaskó, Kaupfélagi Skagafjarðar og Kaupfélagi Vestur Húnvetninga.
Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga en ekki er um beinan verðsamanburð að ræða, þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.
Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Neytendum er bent á reiknivél á heimasíðu ASÍ þar sem áætla má tilætluð áhrif breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum á verð ýmissa vöruflokka.