Halldóra Sveinsdóttir nýr 3. varaforseti ASÍ
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags á Selfossi var í dag kosin 3. varaforseti ASÍ á fundi miðstjórnar sambandsins.
Ragnar Þór Ingólfsson hefur gegnt embætti 3. varaforseta en verður 2. varaforseti eftir að Sólveig Annu Jónsdóttir sagði af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir ASÍ í byrjun mánaðarins.
Halldóra sem er 61 árs hefur verið formaður Bárunnar frá árinu 2010 en starfssvæði félagsins er Árnessýsla utan Ölfus og eru félagsmennirnir rúmlega 2100. Hún hefur setið sem aðalmaður í miðstjórn ASÍ frá árinu 2018 og tekið þátt í fjölmörgum trúnaðarstörfum á vegum hreyfingarinnar að auki.
Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar á Sauðárkróki, kemur inn sem aðalmaður í miðstjórn.