Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hamfaraláglaunastefna á íslenskum vinnumarkaði.

Trúnaðarmannaráð Bárunnar,stéttarfélags sem samanstendur af trúnaðarmönnum og stjórn félagsins  fundaði þann 10. júní um stöðu kjarasamninga og hvernig best væri að nálgast þetta stóra verkefni sem framundan er. Kjarasamningar á almennum markaði eru lausir frá og með 30. nóvember og svo í framhaldi af því losna kjarasamningar við sveitarfélög og ríki. Samhljómur og baráttuandi voru helsu einkenni þessa fundar trúnaðarmannaráðs Bárunnar,stéttarfélags og mikill hugur í félagsmönnum að ekkert yrði gefið eftir í komandi samningum.

  1. 1.      Hvað er framundan hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?
  2. 2.      Hvernig getum við komið í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi sem virðist heldur sækja í sig veðrið þrátt fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í vinnustaðaeftirlit?
  3. 3.      Hvernig komumst við út úr þessari láglaunastefnu sem virðist vera óskráð lög?

 Þetta eru áleitnar spurningar sem segja til um hvað helst brennur á félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags.

Töluverð óvissa ríkir meðan beðið er eftir útspili ríkisstjórnarinnar. Á fundinum komu fram áhyggjur og vangaveltur félagsmanna af svartri atvinnustarfsemi sem virðist blómstra sem aldrei fyrr í atvinnugreinum sem eru í mikilli sókn og horft hefur verið til sem gjaldeyrisskapandi iðnaðar. Það er ekkert sem aftrar mönnum í að þiggja „svarta vinnu“. Hvað er hægt að gera? Hvernig eiga fyrirtæki að geta verið í samkeppni meðan ekki er hægt að ná tökum á þessu þjóðarmeini? Þarna er bara hvati til skattfrjálsra launa. Hvar er mótvægisaðgerðin? Hver er refsingin við svartri atvinnustarfsemi? Ef sektin yrði nógu há hvað þá? Ef lágmarkslaun næðu framfærsluviðmiðum myndi þetta þá lagast?

Trúnaðarmannaráð lýsti áhyggjum sínum á þessari hamfaraláglaunastefnu sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Lægstu launin eru einfaldlega allt of lág og hlýtur hver heilvita maður að sjá það. Umræður um kaupmátt voru á þá leið að ekki væru samningar nú merkilegir ef lægstu laun héldu ekki kaupmætti sínum en hver getur lifað af kr. 204.000 þó svo  þau haldi kaupmætti sínum? Svarið er einfalt ekki nokkur lifandi sála. Lágmarkslaun er bara trygging fyrir því ekki megi greiða lægri laun en áðveðið umsamið lágmark í þessu tilfelli kr. 204.000. Vægast sagt taka sérstakar starfsgreinar þetta afar hátíðlega. Það mega allir greiða hærra og sem betur fer gera það margir. En eftir situr þessi tilhneyging að gera ekki betur en þetta.

Hvati til „svartar vinnu“ er til staðar þegar endar ná ekki saman launin einfaldlega duga ekki fyrir skuldbindingum. Ef lágmarkslaun myndu duga til framfærslu,  myndi hvati til „svartrar vinnu“ minnka, hvati til yfirvinnu yrði minni, störfum myndi fjölga, framleiðsla í þjóðfélaginu almennt aukast og betri skil yrðu á opinberum gjöldum til samfélagsins.

 

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags