Við vinnum fyrir þig

Translate to

Heimsókn þingmanna

Þingmenn samfylkingarinnar, þau Árni Páll Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Guðbjartur Hannesson og Soffía Sigurðardóttir komu í heimsókn á skrifstofu stéttafélaganna í gær. Tilgangurinn var að setja sig inn í þau mál sem helst brenna á okkur hér á félagssvæðinu, ásamt því að kynna fyrir forystumönnum og starfsfólki þær áherslur sem Samfylkingin setur á oddinn í atvinnumálum og uppbyggingu á svæðinu, auk þess að kynna ýmis mál sem ætlunin er að taka til umræðu á Alþingi.

Fundurinn var bæði gagnlegur og ánægjulegur enda nauðsynlegt að stjórnmálamenn séu vel upplýstir um stöðu einstakra svæða. Fjallað var meðal annars um skuldamál heimilanna, svarta atvinnustarfsemi, verðtrygginguna, áhyggjur stéttafélaganna af allt of lágum launum, ýmsar leiðir við að byggja upp leigumarkað á Íslandi og fleira. Einnig voru málefni lífeyrissjóðanna rædd og staða íslensku krónunnar í samhengi við afkomu launafólks.

Fram kom í máli þeirra að mikill vilji er til að vera í góðu sambandi við verkalýðshreyfinguna sem er stærsti einstaki fulltrúi almennings á Íslandi. Viðurkenndu þau að ýmislegt hefði farið úrskeiðis í því efni í tíð síðustu ríkisstjórnar og töldu þau nauðsynlegt að læra af þeim mistökum. Fulltrúar stéttafélaganna fóru yfir ýmislegt sem hefur verið í gangi á félagssvæðinu en lögðu mesta áherslu á að berjast gegn þeirri láglaunastefnu sem virðist hafa rutt sér til rúms á landinu undanfarin ár og áratugi. Skoðun stéttafélagsins kom skýrt fram að þessi stefna er að festa stóra hópa fólks í fátækragildru sem erfitt verður að vefja ofan af og óska þau eftir skilningi stjórnmálamanna og aðstoð við að breyta þessari stefnu.

Stéttafélögin fagna þessu frumkvæði stjórnmálamanna en auk þeirra þingmanna sem komu í heimsókn í gær þá hefur þingmaður sunnlendinga Ásmundur Friðriksson verið duglegur að afla sér upplýsinga og koma í heimsóknir til okkar. Von okkar er að raddir launamanna verði meir áberandi í sölum Alþingis en verið hefur þar sem mest öll umræða hefur verið verið um hvernig koma megi fyrirtækjum til bjargar. Launafólk þarf einnig aðstoð við að ná endum saman og þó saman gangi í viðræðum við atvinnurekendur er ljóst að aðgerðir ríkisvaldsins munu hafa mikil áhrif á hvort launafólk beri raunverulega eitthvað úr býtum.

Það er von stéttafélaganna að fleiri þingmenn verði duglegir við að heimsækja okkur, sem erum í svo nánum tengslum við vinnandi fólk, svo skilaboðin megi ná eyrum þeirra sem þau þurfa að heyra.