Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hvað kostar að æfa handbolta í vetur?

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á gjaldskrám fyrir börn og ungmenni hjá 16 fjölmennustu handboltafélögum landsins fyrir veturinn 2015/16. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði íþróttafélaganna en bornir voru saman 4.,6. og 8. flokkur. Mestur verðmunur í samanburðinum er á mánaðargjaldinu fyrir 4. flokk eða 119%.

Öll félögin bjóða upp á æfingar fyrir 8. flokk (6 og 7 ára) en dýrasta mánaðargjaldið er 6.883 kr. hjá ÍBV en ódýrasta gjaldið er 3.182 kr. hjá HK sem er 3.702 kr. verðmunur eða 116%.

Í 6. flokki (10 og 11 ára) er dýrasta mánaðargjaldið 8.250 kr. hjá Fjölni og ÍR en ódýrasta gjaldið er 4.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 4.250 kr. verðmunur eða 106%.

Dýrast er að æfa í 4. flokki (15 og 16 ára). Í þeim flokki er dýrasta mánaðargjaldið 12.500 kr. hjá Fjölni en ódýrasta gjaldið er 5.700 kr. hjá Val sem er 6.800 kr. verðmunur eða 119%.

Aðeins 2 félög með sömu gjaldskrá og í fyrra fyrir 6. flokk

Af þeim 13 félögum sem borin eru saman á milli ára hafa 11 þeirra hækkað hjá sér ársgjaldið síðan í fyrra. Mesta hækkunin er hjá Umf. Selfoss úr 27.000 kr. í 36.000 kr. eða um 33%, þar á eftir kemur Knattspyrnufélagið Víkingur með hækkun úr 56.000 kr. í 70.000 kr. eða um 25%, árgjaldið hjá FH hefur hækkað úr 55.000 kr. í 66.000 kr. eða um 20%, Stjarnan, Afturelding og ÍBV hækkuðu gjaldskrána um 10-11%, HK, Fram, Grótta og Haukar hækkuðu gjaldskránna um 4-7% en minnsta hækkunin er hjá Fylki um 2%. Gjaldskráin hjá er óbreytt hjá KA og Þór á Akureyri.

Tekið skal fram að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin. Ekki er tekið tillit til hvað félögin bjóða upp á margar æfingar í viku, en ekki er mikill munur á fjölda æfinga milli félaga. Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til fjáraflanna sem íþróttafélögin standa fyrir eða styrkja frá sveitarfélögunum. Hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldskránum sem bornar eru saman. Taka skal fram að árgjaldið hjá ÍBV er bæði fyrir handbolta og fótbolta. Misjafnt er hvort æfingatímabilið er 9, 10 eða 11 mánuðir hjá félögunum. Sum félaganna bjóða upp á afslátt ef allur veturinn er greiddur á sama tíma.

Sjá nánar í töflu.

Nánari upplýsingar á heimasíðu ASÍ, www.asi.is