Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hvort er hagstæðara að kaupa inn á föstudegi eða laugardegi?

Við samanburð verðkönnunar sem gerð var föstudaginn 26. október og verðkönnunar sem gerð var daginn eftir, á laugardegi, kom í ljós að verð á þeirri matvöru sem verðlagseftirlitið skoðaði var nánast óbreytt. Hagkaup var eina matvöruverslunin þar sem engar verðbreytingar voru á milli daganna tveggja. Verslanirnar Kostur, Samkaup Úrval og Víðir neituðu að taka þátt.

 
Verðhækkanir
Af þeim matvörum sem skoðaðar voru hækkaði verðið mest á iceberg salati, blómkáli, tómötum og agúrku hjá versluninni Nettó Mjódd eða um 43% milli daga. Aðrar vörur sem hækkuðu milli daga voru t.d. Myllu hveitibrauð sem hækkaði um 12% hjá Krónunni og Holta kjúklingapylsur um 15% hjá Nóatúni.
 
Verðlækkanir
Mesta lækkunin á milli kannanna var á kartöflum í lausu eða um -30% hjá Nettó. Sem dæmi um aðrar vörur sem lækkuðu í verði eru t.d. Bíó bú kókosjógúrt sem lækkaði um -6% hjá Nóatúni og jarðaberja Húsavíkurjógúrtið sem lækkaði um -8% hjá Bónus.   
 
Sjá nánari niðurstöður á heimasíðu ASÍ
 
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
 
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kringlunni, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Nóatúni Hringbraut og Hagkaupum Holtagörðum.
 
Verslanirnar Kostur, Samkaup Úrval og Víðir neituðu að taka þátt í verðkönnuninni, þar sem þeir telja það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlageftirlit ASÍ upplýsi neytendur um verð í verslunum þeirra.
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ