Við vinnum fyrir þig

Translate to

Jafnaðarkaup og verktakavinna

Ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart því að fólk fái greitt eftir þeim samningum sem í gildi eru.Stéttarfélögin á Suðurlandi hafa fengið mörg mál til meðferðar sem fjalla um meintar vanefndir á kjarasamningum. Flest þessi mál sem varða unga fólkið snúast um svokallað jafnaðarkaup og verktakavinnu.

 

Jafnaðarkaup

Launataxtar fólks á aldrinum 16 – 18 ára eru ekki háir. Reikna má með að mánaðarlaun 17 ára unglings séu um 170 – 180 þúsund krónur miðað við gildandi taxta í samningi Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins, svo dæmi sé tekið. Það gerir tæpar þúsund krónur á tímann í dagvinnu. Í ákveðnum atvinnugreinum sem treysta mikið á sumarráðningar er töluvert um að unglingum sé boðið upp á svokallað jafnaðarkaup. Þetta þekkist aðallega í verslun og ferðaþjónustu en þekkist einnig í öðrum atvinnugreinum.

Svo eitt sé á hreinu, þá er ekkert í samningum sem heitir jafnaðarkaup. Óheimilt er lögum samkvæmt, að gera samning sem er undir gildandi kjarasamning og þá skiptir ekki máli þó launþegi sé tilbúinn að gera slíkan samning og að vinna á lakari kjörum. Það er einfaldlega óheimilt að gera slíka samninga. Laun skulu greiðast í samræmi við gildandi samninga þ.e. dagvinna skal greidd á dagvinnutíma og yfirvinna fyrir alla vinnu sem unnin er utan þess tíma. Á vaktavinnu skal reikna ákveðið álag, eftir því hvenær tíma sólarhrings unnið er.

 Sá sem verður fyrir því að honum er boðið upp á annað, ætti að fara fram á að fá að sjá forsendur útreikninga á því hvernig þetta kaup er reiknað út. Algengast er að vinnuveitandi reikni saman dagvinnukaup og yfirvinnukaup og finni meðaltalstölu þar á milli. Reynsla stéttarfélaganna er að í langflestum tilvikum er þetta starfsmanni í óhag.

Hér er eitt dæmi um mál sem kom inn á borð Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi

Ung stúlka réð sig sem starfsmann í söluturni upp á jafnaðarkaup og vann svo meirihluta vinnutíma síns eftir kl. 18 og um helgar. Algengt er að eigendur vinni fyrri hluta dagsins en ráði fólk til að vinna á kvöldin og um helgar. Það þýðir í stuttu máli að í stað þess að fá eftir- og yfirvinnukaup fyrir stærstan hluta vinnutíma síns þá fékk hún bara 70 – 75 % af því sem hún hefði átt að fá samkvæmt samningum.

Samningar milli aðila eru ekki háðir einhliða túlkun atvinnurekenda. Þó að maður sé bara sextán eða sautján ára þá á maður kröfu á að vera sýnd sú virðing að vera ekki talinn annars flokks vinnukraftur. Sé maður í vafa um að rétt sé greitt fyrir vinnu þá er bara eitt að gera, hafa samband við stéttarfélagið sitt og fá úr því skorið hvort rétt sé reiknað.

 

Verktakavinna

 Töluvert er um að um að fólki sé boðið að taka að sér vinnu í verktöku. Ekki á þetta síst við um ungt fólk í þjónustustörfum. Nefna má dyravörslu og ræstingar í þessu sambandi. Nú er í sjálfu sér ekkert sem bannar mönnum að ráða sig í verktöku. Stéttarfélögin vekja hinsvegar athygli á nokkrum atriðum sem vert er að hafa í huga ef slíkt stendur til boða.

 Það er reynsla stéttarfélaganna að verktakasamningar eru í flestum tilvikum mjög óhagstæðir launþegum. Ástæðurnar eru nokkrar:

 Þó að það kunni að líta vel út á pappírnum, svo sem hærra tímakaup og frjálslegur vinnutími, þá hangir fleira á spýtunni. Sá sem ræður sig í verktöku þarf að hafa um það bil 70% hærri laun en taxtar segja til um. Það er til að geta staðið skil á öllum launatengdum gjöldum svo sem staðgreiðslu skatta, stéttarfélagsgjöldum, lífeyrisiðgjöldum og tryggingum. Þessi gjöld eru ekki valkostir launþega, þau eru bundin í lög.

 Sá sem vinnur sem verktaki hefur alla jafna ekki sama rétt til launa í veikindum nema hann greiði sjálfur allar tryggingar. Sama gildir ef hann slasast í vinnunni. Greiði hann heldur ekki í stéttarfélag á hann ekki rétt til neinnar aðstoðar af hendi félaganna ef hann lendir í útistöðum við atvinnurekanda eða lendir í veikindum eða slysi. Að auki bætist við öll umsýsla og umstang fyrir þá sem vilja hafa allt sitt á hreinu og menn verða þá að spyrja sig hvort þeir séu tilbúnir að reikna þá vinnu inn í verktakalaun.

 Að öllu jöfnu þá lítur dæmið þannig út fyrir launþegann að ástæðan fyrir því að verið er að bjóða verktöku er ekki sú að atvinnurekandinn sjái í því hag fyrir launþegann. Þeir hugsa fyrst og fremst um hag fyrirtækisins og því er þetta ein aðferðin við að lækka launakostnað.

 Niðurstaðan er sú að ef manni er boðinn verktakasamningur þá þarf að skoða hann vel og rækilega. Útreikningur þarf að liggja fyrir. Maður þarf að afla sér þekkingar á hvernig staðið er að útreikningi lögbundinna gjalda og sjá til þess að þau séu greidd. Annars er mikil hætta á að til dæmis skattayfirvöld fái á manni óþægilega mikinn áhuga. Ef draga má lærdóm af sögunni þá er nokkuð öruggt að skatturinn mun finna leiðir til að innheimta ógreidd gjöld.

Innlent dæmi um stöðu starfsmanns sem vann sem verktaki á skemmtistað

 Starfsmaður hafði unnið við dyravörslu í eitt og hálft ár á skemmtistað sem verktaki. Fyrirtækið sem hann vann hjá varð gjaldþrota og átti hann þá inni laun sem svaraði einum og hálfum mánuði. Að auki átti hann yfir höfði sér kæru frá einum gesta skemmtistaðarins fyrir líkamstjón sem sá taldi sig hafa orðið fyrir af hans hálfu.

Erfitt hefur reynst fyrir þennan starfsmann að innheimta laun þar sem skiptastjóri neitar að samþykkja launakröfu hans þar sem um verktakavinnu er að ræða. Til að bæta gráu ofan á svart þá var fyrrum vinnuveitandi mannsins ekki með neinar tryggingar fyrir starfsmenn sína eða verktaka á sínum snærum. Stéttarfélagið á óhægt um vik við að aðstoða þar sem ekki hafa borist neinar greiðslur til félagsins frá starfsmanninum.