Við vinnum fyrir þig

Translate to

Jákvæður fundur en mikil vinna eftir

Forystumenn Alþýðusambandsins og SA áttu í gær fund með sjö ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal forsætis- og fjármálaráðherra. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir fundinn hafa verið efnisríkan en á honum fóru aðilar vinnumarkaðarins yfir þau atriði kjaraviðræðna sem að snúa að stjórnvöldum.

Gylfi segir mörg þeirra mála í góðum farvegi og ekki mikill skoðanamunur, frekar deili menn um útfærslur og fjármögnun. Þannig sé t.d. þokkaleg samstaða í starfshópi um menntunarúrræði fyrir atvinnulausa og miklar væntingar um að hægt verði að koma á greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða vegna Starfsendurhæfingarsjóðs en sú umræða er í góðum farvegi. Meiri ágreiningur er t.d. varðandi þá kröfu aðila vinnumarkaðarins að fá að axla meiri ábyrgð á þjónustu við atvinnulausa. Varðandi grundvöll efnahagsstefnunnar, bæði forsendur gengisþróunar og hagvöxt og atvinnumál eru hins vegar stóri ásteytingarsteinninn.

„Það er alveg ljóst að það þarf að auka fjárfestingar í atvinnulífinu. Af hálfu ASÍ viljum við að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa fyrir ákveðinni innspýtingu í hagkerfið á næstu þremur árum, bæði beint í formi vegaframkvæmda í einkaframkvæmd eða með öflugri sókn í stóriðju og orkuframkvæmdum. Miðað við þau verkefni sem við vitum að eru í hendi geta þetta verið um 200 milljarðar í nýjum fjárfestingum á næstu þremur árum sem gæti aukið hér hagvöxt frá 2-2,5% í allt að 4%. Ríkisstjórnin vill ekki binda sig í ákveðnum verkefnum og talar um að margir hafi áhuga á að koma hingað með fjárfestingar. Það er auðvitað gott, en við þurfum hins vegar ákvarðanir. Það verður ekki hægt að hækka laun eða fjölga störfum í landinu á væntingunum einum saman. Ef eitt verkefni dettur upp fyrir verður eitthvað annað að koma í staðinn. Mikilvægast er auðvitað að við þurfum að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í virkjanamálum og því verður að hraða vinnu með rammaáætlunina og klára hana fyrir sumarleyfi. Það er ljóst að atvinnumálin verða þyngsta málið sem snýr að stjórnvöldum,“ segir Gylfi. „Við lögðum áherslu á það í morgun að tíminn væri að hlaupa frá okkur ef það á að klára samninga fyrir næstu útborgun launa. Málin verða að komast fyrir alvöru á hreyfingu þannig að þau klárist í næstu viku,“ segir forseti Alþýðusambandsins.

Tekið af heimasíðu ASÍ