Kjarasamningar halda
Lífskjarasamningunum svonefndu sem undirritaðir voru 3. apríl 2019 var ákvæði um sérstaka launa- og forsendunefnd sem hafði það verkefni ,,að leggja mat á forsendur kjarasamningsins og ákvæði hans um hagvaxtarauka og taxtaauka”. Forsendunefndin var skipuð þremur fulltrúum frá samninganefndum félaganna og þremur frá Samtökum atvinnulífsins.
Eins og skýrt hefur komið fram í fréttum töldu fulltrúar ASÍ að ekki væru forsendur til að segja kjarasamningum upp núna, meðan fulltrúar SA reyndu að nota ástandið til að ná fram breytingum á kjarasamningum og þá sérstaklega að fresta samningsbundinni launahækkun sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2021. Ríkisstjórnin kynnti sérstakar aðgerðir til að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þessar aðgerðir m.a. urðu til þess að SA ákvað að lokum að segja ekki upp samningum og reyndar vandséð að þeir hafi haft til þess forsendur eða rétt. Þess má geta að ASÍ hefur sett fram mjög ákveðna gagnrýni á þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Þessi niðurstaða ASÍ og SA þýðir að samningurinn stendur óbreyttur.
Þann 1. janúar 2021 hækka kauptaxtar um 24.000 kr. og almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækka um 15.750 kr. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka um 2,5% á sömu dagsetningu. Einnig hækka lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 351.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2020.
Mikilvægt er að félagsmenn fylgist vel með að umsamdar hækkanir og breytingar skili sér til þeirra með réttum hætti.
Í kjarasamningi SGS við Samband Íslenskra sveitarfélaga eru ákvæði um að ef það verði breytingar á samningum á almennum markaði eða þeim verði sagt upp, sé hægt að segja upp þeim kjarasamningi. Ljóst er að ekki eru forsendur til slíks og koma því hækkanir í þeim samningi einnig til framkvæmda. Það sama gildir um kjarasamning SGS við ríkið.