Við vinnum fyrir þig

Translate to

Kjaraviðræðum slitið

Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar yfirgáfu karphúsið á tólfta tímanum sl.föstudagskvöld. Á vef ASÍ má sjá eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í upphafi þeirra kjaraviðræðna sem staðið hafa undanfarna mánuði lögðu Samtök atvinnulífisins ríka áherslu á að gerður yrði kjarasamningur til þriggja ára. Rökin voru þau að slíkur samningur myndi skapa stöðugleika sem nauðsynlegur væri á vegferð þjóðarinnar út úr mestu kreppu síðari tíma á Íslandi. Þetta var kölluð atvinnuleiðin. Þrátt fyrir takmarkaðan áhuga ASÍ og aðildarsamtaka þess í fyrstu á langtíma samningi, vegna óvissu í efnahagsmálum, var ákveðið að hefja viðræður á þessum nótum og skoða hvað áynnist.

Fljótlega eftir að viðræður hófust kom í ljós að Samtök atvinnulífsins gerðu það að skilyrði fyrir gerð kjarasamninga, að niðurstaða fengist í sjávarútvegsmálum. SA vildi ekki einungis tryggja lausn í sjávarútvegsmálum, heldur náði krafan einnig til þess að lausnin væri SA og LÍÚ þóknanleg. Samninganefnd ASÍ var ekki reiðubúin að setjast að viðræðum á þessum forsendum og sleit viðræðum. Umræða um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa ekkert með almennar kjaraviðræður á Íslandi að gera. ASÍ og aðildarsamtök þess hafa skoðanir á sjávarútvegsmálum en það hefur aldrei komið til greina hjá Alþýðusambandinu að styðja kröfur SA og LÍÚ varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Viðræður hófust aftur í febrúar eftir að miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun þar sem áréttað var að SA bæri samkvæmt landslögum að standa undir þeirri frumskyldu sinni að ganga til kjarasamninga. Sjávarútvegsmálin vofðu þó enn yfir.

LÍÚ var með kverkatak á kjaraviðræðunum. LÍÚ tók 100 þúsund félagsmenn ASÍ í gíslingu. LÍÚ sem er eitt af átta aðildarfélögum SA tók sín eigin samtök í gíslingu og þar með stóra aðila eins og Samtök iðnaðarins, Samtök verlsunar og þjónustu og Samtök ferðaþjónustunnar. Allt var þetta gert til að þvinga fram niðurstöðu í sjávarútvegsmálum sem væri útgerðaraðlinum í landinu þóknanleg. Þetta er ofbeldi og vinnubrögð sem eru LÍÚ til vansa. Þetta framferði varð að lokum til þess að sú vegferð um þriggja ára samning, sem SA hóf sjálft í byrjun árs, rann út í sandinn í dag.

Rökin sem SA lagði upp með, að þjóðarheill krefðist langtímasamnings, véku á endanum fyrir hagsmunum LÍÚ. Það er dapurleg niðurstaða. SA beit svo höfuðið af skömminni með því að ganga á bak orða sinna og svíkja undirritun skammtímasamnings sem lá á borðinu og fresta þannig launahækkun hjá okkar fólki.“