Við vinnum fyrir þig

Translate to

Kjaraviðræður í hnút- verkfallsboðun rædd

Það er gamall sannleikur og nýr að ekkert fæst án baráttu. Í þeirri baráttu er verkfallsvopnið öflugt en vandmeðfarið. Það ber að nota af ábyrgð. Nú er nauðvörn.

Tilboð Starfsgreinasambandsins sem lagt var fram fyrir páska að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins var hafnað. Samtök atvinnulífsins standa föst á þeirri kröfu að ekki verði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið sé fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þau virðast föst í neti útvegsmanna. Þessi krafa Samtaka atvinnulífsins var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust í janúar. Þá var óskaði eftir því við Starfsgreinasambandið og önnur aðlidarsambönd ASÍ að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum var svarað jákvætt og því mátti ætla að vilji hafi verið til samninga. Það reyndist blekking. Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja nema þau fengju fram vilja sinn gagnvart ríkisstjórninni. Slík gíslataka stríðir gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/ 1938. Krafan er sett er fram í viðræðum um gerð kjarasmnings milli aðila vinnumarkaðarins. Henni er ætlað að þvinga stjórnarvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laganna.  Kjardeilan er kominn í hnút. Samtök atvinnulífsins fara ekki að lögum. Ríkisstjórnin lætur ekki kúga sig. Við verkafólk er ekki samið.

 

Aðgerðarhópur Starfsgreinasambandsins ræðir nú möguleika á verkafallsaðgerðum til að mæta óbilgirni atvinnurekenda. Kjaradeilunni var vísað á borð ríkissáttasemjara í janúar. Viðræður um launaliði hafa reynst áranguslausar. Það er hlutverk ríkissáttasemjara að reyna allar leiðir til að fá menn að samningaborðinu. Takist honum það ekki og láti Samtök atvinnulífsins ekki af ólögmætum aðgerðum sínum blasir verkfallsboðun við með dapurlegum afleiðingum fyrir t.d. ferðaþjónustusumarið, verslun og iðnað í landinu. Það er okkar nauðvörn og barátta sem við verðum að taka eigi árangur að nást í kjaraviðræðunum.

Tekið af heimasíðu SGS