Kröfuganga og fjölbreytt hátíðardagskrá 1. maí á Selfossi
Báran stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi og Félag iðn- og tæknigreina standa fyrir dagskrá á alþjóðlegum baráttu- og hátíðardegi verkalýðshreyfingarinnar sunnudaginn 1. maí n.k.
Safnast verður saman við Tryggvatorg á Selfossi kl. 11.00 og gengið verður að Austurvegi 56 við undirleik Lúðrasveitar Selfoss. Félagar í Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá á útisviði. Kynnir er Björgvin Franz Gíslason leikari og ræðumaður dagsins er Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags. Gunnlaugur Bjarnason nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurlands lýsir framtíðarsýn unga fólksins. Karlakór Selfoss flytur nokkur lög og Björgvin Franz ásamt ævintýrapersónunum úr Stundinni okkar skemmta gestum. Að lokinni dagskrá verður boðið upp á morgunkaffi í sal stéttarfélaganna á Suðurlandi. Íslandus ísbar fagnar deginum með andlitsmálningu fyrir börnin og tilboðsverði á ís. Sunnlendingar sýnum samstöðu og fjölmennum.