Kröfugerð SGS fyrir komandi kjaraviðræður
Forsendur þess að undirritaðir verði kjarasamningar er að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum og þau mæti opinberum framfærsluviðmiðum. Hækkanir lægstu launa skulu vera í forgangi. Stefnt skal að því að semja til þriggja ára en þó með skýrum og mælanlegum forsenduákvæðum, meðal annars jöfnunarstuðli þannig að þær launahækkanir sem samið er um fyrir lág- og millitekjuhópa umbreytist ekki sjálfkrafa í ofurlaunahækkanir til þeirra hæst launuðu. Samið skal um krónutöluhækkanir sem almennar hækkanir. Tekjutrygging skal afnumin og lægstu taxtar skulu vera lægstu grunnlaun.
Lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga, þannig að sköttum verði létt af lægstu launum og lægri millilaunum.
Orlofs- og desemberuppbætur taki sérstökum hækkunum.
Vinnuvikan verði skilgreind frá mánudegi til föstudags og markvisst sé stefnt að 32 stunda vinnuviku á samningstímanum.
Staða lífeyrirssjóðakerfisins verði rædd og sérstaklega hvernig nýta megi fjárfestingagetu þess til uppbyggingar á húsnæðismarkaði sem nýtist lág- og miðtekjuhópum.
Kröfugerð SGS á hendur SA í heild sinni.
Það er skýlaus krafa félagsmanna innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands að stjórnvöld axli ábyrgð á bættum kjörum með endurskoðun skatta- og bótakerfisins og stórátaki í húsnæðismálum. Tugir þúsunda félagsmanna hafa tekið þátt í mótun kröfugerðar og er það samdóma álit að spjótin beinist að stjórnvöldum í komandi kjaraviðræðum.
Lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra
skattaframlagi þeirra tekjuhæstu. Álagning tekjuskattkerfisins á lægri og hærri tekjuhópa verði þar með líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Persónuafsláttur fylgi launaþróun.
Fjármagnstekjuskattur verði hækkaður til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fjármagnseigendur verði heldur ekki undanskildir greiðslu útsvars. Þá þarf að endurskoða fasteignaskatt þannig að hann stökkbreytist ekki með markaðshækkunum á verði íbúðarhúsnæðis og verði þar með óeðlilega íþyngjandi fyrir almennt launafólk sem hefur tekist að fjármagna íbúðakaup sín.
Gert verði þjóðarátak í húsnæðismálum, sambærilegt að vöxtum og áhrifum og verkamannabústaðakerfið sem var og hét. Ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og
lífeyrissjóða til að gera það að veruleika. Húsnæðisstuðningur (húsnæðis- og vaxtabætur) verði stórlega efldur. Dregið verði úr skerðingum vegna tekna og eigna.
Barnabætur verði hækkaðar og dregið úr skerðingum.
Lögð er áhersla á að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarahækkana og launafólk á almenna vinnumarkaðnum.
Verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. Húsnæðisliður verði tekinn út úr lögum um vexti og verðtryggingu. Seðlabankinn stuðli að lækkun stýrivaxta og þak verði sett á húsnæðisvexti með það
að markmiði að ná hér vaxtakjörum sem eru sambærileg því sem tíðkast í nágrannalöndunum.
Lengja fæðingarorlof beggja foreldra í samtals allt að 18-24 mánuði.
Draga verður stórlega úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu og stofna embætti umboðsmanns sjúklinga.
Styrkja þarf lagaumhverfi til að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði og kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð með skýrum hætti og sektir lögfestar við slíkum brotum.