Við vinnum fyrir þig

Translate to

KVEÐJUR Á BARÁTTUDEGI VERKALÝÐSINS

Kæru félagar.

Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag launafólks.

Nú þegar kjarasamningar hafa verið samþykktir á almennum markaði vil ég þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í kjarasamningsgerðinni bestu þakkir.

Það er umhugsunarefni hvað lítil þátttaka var í atkvæðagreiðsu um kjarasamningana. Í Starfsgreinasambandi Íslands voru tæplega 40.000 á kjörskrá en aðeins greiddu 12.78% að meðaltali atkvæði. Niðurstaðan var að 80% sögðu já, 17% nei. Lífskjarasamningurinn endurspeglar hóflegar launahækkanir, sem gætu leitt til aukins kaupmáttar á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta, stöðugs gengis og tengingu við hagvöxt. Eins konar rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðarins.

Núna eru viðræður í gangi við ríki og sveitarfélög. Vegna samkomulags um launaþróunartryggingu (Saleks samkomulagsins https://www.asi.is/media/241206/3740_001.pdf ) er upphafshækkun ASÍ hópsins hjá ríkinu 0,4% en 1,7% hjá sveitarfélögunum. Það er forgjöf áður en við förum að semja um launahækkanir.

Verkalýðshreyfingin hefur verið fyrirferðamikil í kjarabaráttunni og aldrei fengið eins mikla athygli í fjölmiðlum, þess vegna kemur kjörsóknin á óvart.

Við lifum í heimi þar sem gott aðgengi er að upplýsingum og við getum „google“ allt sem við viljum vita. Það er umhugsunarvert hvað fjölmiðlar eru ekki vandir að virðingu sinni og endurspeglar fjölmiðlaumræðan oftast ekki þann raunveruleika sem við þekkjum, mikið er um rangfærslur í þeirra málfluningi. Oftar en ekki gefa fjölmiðlar ekki rétta mynd af þeirri miklu vinnu sem unnin er innan stéttarfélaganna og verkalýðshreyfingarinnar. Við vitum hvað er rétt og megum vera stolt af þeirri baráttu sem okkar félagar hafa haldið á lofi í 100 ár.

Fyrir margt löngu hitti ég mæta konu á förnum vegi. Konan spurði mig „hvert ertu að fara“. „Á fund hjá verkalýðshreyfingunni“ svaraði ég.  Hún varð hugsi og sagði svo hvað kemur frá verkalýðshreyfingunni. Ég svarði um hæl án þess að hugsa „allt gott kemur frá verkalýðshreyfinunni“. Ef litið er yfir farin veg og rúmlega 100 ára saga skoðuð þá eru puttaför hreyfingarinnar á flestum þeim velferðarmálum sem snúa að kjörum fólks. Baráttan fyrir bættum kjörum er lifandi barátta og heldur áfram því við viljum jafna kjörin og búa til samfélag fyrir alla.

Baráttukveðjur,

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.